Þeir þættir í umhverfinu sem hafa áhrif á hvernig maðurinn upplifir það verða meðal þess sem fjallað verður um á námskeiðinu Maður og skipulag sem haldið verður í húsum LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík og hefst 21. ágúst. Gunnar Ágústsson skipulagsfræðingur kennir.
Námskeiðinu er ætlað að kynna mannlega þáttinn í skipulagi og gagnvirk áhrif almennings og hins byggða umhverfis sem skipulagið myndar. Fjallað er um hvernig greina má upplifun íbúana og gesta á borgarrýmunum og hvernig þau nýtast fólkinu sem lifir og hrærist í þéttbýlinu. Fjallað er um mannlíf í þéttbýli og athafnir almennings, hvaða þættir í umhverfinu hafa áhrif á hvernig maðurinn upplifir umhverfi sitt og hvernig greina má þessa þætti.
Þættir eins og byggðamynstur, hönnun, stærðarhlutföll, notkun, umferð, flæði, staðsetning, tengsl, stærð og gerð rýmisins verða skoðaðir með tilliti til staðbundinna áhrifa sólar og vinds.
Fjallað er um hvernig fótgangandi maður skynjar umhverfi sitt, hverjir eru notendur viðkomandi svæða og til hvers þeir nýta þau, hverjir og hve margir nýta borgarrýmið og til hvers.
Rætt er um á hverju athafnir byggjast; af nauðsyn, að eigin ósk (notkun í frítíma) eða vegna félagslegra athafna. Kynnt er megindleg og eigindleg aðferðafræði til að greina mannlíf og almenningsrými. Nemendur vinna hagnýtt verkefni.
Í lok námskeiðs á nemandi að:
- Hafa aukna meðvitund og skilning á mannlífi og skipulagi
- Hafa opin augu fyrir ýmsu í nágrenni sínu sem endurspeglar gagnvirk áhrif almennings og skipulags
- Þekkja hvernig greina má upplifun íbúanna á borgarrýmum og hvernig þeir nýta ólík rými innan þéttbýlisins
- Kunna skil á hvernig ólíkir þættir mynda borgarrýmið
- Þekkja hvaða þættir hafa áhrif á upplifun almennings á borgarrými
- Gera sér grein fyrir hvernig borgarrýmið er nýtt á ólíkum tímum sólarhringsins
- Átta sig á að ólíkir aðilar nýta borgarrýmið á ólíkan hátt
- Kunna skil á upplýsingaleit á prentuðu og rafrænu formi
- Þjálfa samskipta- og tjáskiptahæfni sína með verkefnavinnu og kynningu verkefna í myndum og máli
- Öðlast færni í greiningu gagna og úrvinnslu þeirra
Þeir nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LbhÍ sækja sama námskeið og þeir nemendur sem skráðir eru í nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Nemanda sem uppfyllir öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs. Námskeiðið er á meistarastigi og má meta til fjögurra ECTS-eininga.
Kennsla: Gunnar Ágústsson skipulagsfræðingur
Tími:
Föstudag 21. ágúst kl. 10.35-14.25
Laugardag 22. ágúst kl. 13-15.10
Þriðjudag 25. ágúst kl. 15.15-17.25
Þriðjudag 1. september kl. 15.15-17.25
Þriðjudag 8. september kl. 15.15-17.25
Þriðjudag 15. september kl. 15.15-17.25
Þriðjudag 22. september kl. 15.15-17.25
Þriðjudag 29. september kl. 15.15-17.25
Staður: LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík (Vinsamlegast athugið að tímatafla er birt með fyrirvara um breytingar)
Verð: 54.000kr
Upplýsingar og skráning