Þankar um sauðfé og niðurgreiðslur (Morgunblaðið, sunnudaginn 20. júní, 2004 - Bréf til blaðsins)

Sagan geymir nöfn margra hugrakkra kvenna, sem sumar hafa unnið stórvirki án þess að ætlast til fjár eða frama að launum. Þessar konur hafa fylgt sannfæringu sinni þrátt fyrir árásir og mótgang.
Mér koma í hug Rachel Carson, sem bjargaði fuglalífi jarðar; kona sú hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu sem neitaði að leyfa sölu á Thalidomíði og bjargaði þannig þúsundum, ef ekki tugþúsundum barna frá hroðalegum fæðingargöllum; Rose Parks, fátæka blökkukonan, sem neitaði að láta fara með sig eins og hund og varð sá neisti, sem kveikti þann kyndil, sem vísaði Bandaríkjamönnum leið út úr frumskógi kynþáttamisréttis.

Hallgerður langbrók hefur kannski ekki notið sannmælis sem skyldi en hún sýndi kjark og hugrekki svo óvenjulegt var. Sigríðar í Brattholti minnumst við fyrir það hugrekki sem hún sýndi, þegar hún bjargaði Gullfossi, gimsteini íslenzkrar náttúru. Þá má ekki gleyma Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem barðist hvað harðast fyrir réttindum íslenzkra kvenna, sem enn hafa ekki fengið fullt jafnrétti við karla, þótt skömm sé frá að segja.

Nú er komin fram enn ein kvenhetjan, Margrét á Skaganum. Hún hefur kjark til að ráðast gegn þeirri óvætt, sem sauðfjárrækt á Íslandi er í dag. Sauðkindin á Íslandi er eins og kýrin í Indlandi, heilagt dýr, sem ekki má ræða á grundvelli skynsemi og hagkvæmni. Ef engar kindur væru í landinu og fram kæmi uppástunga um innflutning dýrs, sem eyðilegði allan gróður, ylli uppblæstri og landauðn og þar að auki kostaði skattborgara ómælt fé í niðurgreiðslur og styrki, myndi framsögumaður þeirrar tillögu verða settur á sterk meðul.

Faðir minn og aðrir sumarbústaðaeigendur reyndu að græða upp mela og börð en allt kom fyrir ekki. Uppflosnuðum bændum á mölinni leyfðist að gera út á garðagróður. Þeir höfðu kindur í kofum og skúrum víðsvegar í bæjarlandinu og þegar voraði var þessum vargi sigað á allt, sem grænan lit bar. Þessum garðarollum héldu engar girðingar og eigendur þeirra voru sumir svo ósvífnir að þeir kröfðust bóta ef vargurinn fór sér að voða við girðingaklifrið. Svo var þessu slátrað, hið opinbera greiddi niður, Sambandið geymdi krofin í eitt eða tvö ár og svo var mikið af þessu urðað suður í Hafnarfjarðarhrauni og þá kallað hraundýrakjöt.

Ærunnendur tala sí og æ um fortíðina og þátt sauðkindarinnar í að halda lífi í þjóðinni og það er rétt mál að vissu marki, þó segja megi að hefði þjóðin ekki verið í fjötrum kristninnar hefði margur, sem annars svalt í hel, getað bjargað lífinu með góðu trippakjöti, en nóg um það. Tvíbýli mannsins og kindarinnar var þá nauðsynlegt en tímarnir hafa breyzt. Þörfin fyrir kindakjöt er ekki nema brot af því, sem framleitt er, það sýna niðurgreiðslur og styrkir. Allt tal um stórfelldan útflutning er út í bláinn, það er engin leið að keppa við lönd þar sem fé gengur á beit tólf mánuði ársins. Það er alltaf hægt að gefa amerískum frammámönnum og bankastjórum lambalæri í veizlu og fá þá til að segja að þetta sé nú bara ansi gott en það þarf einfeldning til að halda að allur almenningur hér fari að breyta sínum matarvenjum. Lambakjöt skipar hér svona svipaðan sess og kæst skata eða siginn fiskur á Íslandi, ekki beint það fyrsta sem húsmóður kemur í hug þegar hún fer að kaupa í matinn.

Herdís Þorvaldsdóttir hefur lengi bent á hættuna á útrýmingu ýmissa plöntutegunda og þátt kindarinnar í þeirri eyðileggingu en hún hefur farið of vægt í sakirnar.

Margrét á Skaga virðist vera eina manneskjan sem þorir að benda á sökudólginn og heimta að eitthvað sé gert. Mér þykir merkilegast að enginn skuli hafa komið fram og stutt Margréti. Maður skyldi ætla að minnsta kosti skógræktarmenn legðu henni lið og ekki síður markaðshyggjumenn, dýrkendur Adams heitins Smith.

Margrét stendur vel fyrir sínu og svarar sauðamafíunni fullum hálsi, en gaman væri ef einhver, sem henni er sammála, og þeir hljóta að skipta þúsundum, þyrði að styðja hana.

Ef það er einhver huggun, höfum við hér vestra svipaða plágu, dádýrin. Þessi vargur étur allt sem að kjafti kemur, eyðileggur skóglendi og, eins og íslenzka kindin, sækir mest í garða almennings og aðra ræktun. Ekki nóg með það, heldur farast hundruð manna árlega þegar þessi ófögnuður hleypur í veg fyrir bíla, svo ekki sé minnst á eignatjón í því sambandi.Vegna þess óhappaverks Walt Disneys að gera Bamba-myndina er nær ómögulegt að halda þessum meindýrum í skefjum. Sé stungið upp á fækkunaraðgerðum ærast Bamba-vinirinir og hóta málaferlum og öðru þessháttar. Það eina sem virðist geta bjargað skóglendi austurríkjanna er að okkur berist einhver pest á við mæðiveikina.

Ég skora því hérmeð á réttsýnt fólk að styðja Margréti í baráttu hennar fyrir gróðri landsins og pyngju skattborgara.

GEIR MAGNÚSSON,
4052 Lisburn Road,
Mechanicsburg, PA 17055,
Coot1@verizon.net