Ef jarðarbúar taka höndum saman og gróðursetja þúsund milljarða trjáplantna á næstu árum bindur sá trjágróður að minnsta kosti allan þann útblástur sem mannkynið veldur í heilan áratug. Þetta væri mjög mikilvæg aðgerð enda taka orkuskipti í heiminum talsverðan tíma og umbreytingin yfir í grænt hagkerfi sem byggist á hringrásum og endurnýjanlegum auðlindum.
Ef jarðarbúar gróðursettu þúsund milljarða trjáplantna á næstu árum myndi hinn aukni trjágróður hlutleysa allan útblástur af mannavöldum í heilan áratug. Nóg er af landi um allan heim sem ekki þarf að nota í annað.
Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem sagt er frá í heimspressunni þessa dagana. Meðal annars eru fréttir um rannsóknina í breska fjölmiðlinum Independent og norska ríkismiðlinum NRK en líka á ýmsum sérhæfðum vefjum eins og til dæmis á sænska skógarfréttavefnum Skogsaktuellt. Rannsóknin var kynnt um helgina og þar er í forystu rúmlega þrítugur vistfræðingur við tækniháskólann í Zürich í Sviss, Thomas Crowther. Hann stýrir við skólann rannsóknarmiðstöð sem við hann er kennd og kallast Crowther Lab.
Tækniháskólinn í Zürich er meðal virtustu háskólastofnana í heiminum þannig að þessar niðurstöður standa föstum fótum. Að sögn Crowthers hefur rannsóknarhópurinn reiknað út að trjáplöntur á jörðinni séu um það bil þrjú þúsund milljarðar talsins. Samanlagt hafi þær tekið um 400 gígatonn af koltvísýringi úr andrúmsloftinu.
Þessar tölur fékk vísindafólkið við Crowther Lab með því að keyra saman gervitunglagögn og gögn úr vettvangsrannsóknum. Talan er tíföld á við það sem bandaríska geimferðastofnunin NASA hafði áður áætlað, eftir því sem segir frá í The Independent. Með sömu aðferðum hefur vísindafólkið í Sviss reiknað út að nægt landrými sé fyrir hendi á jörðinni til að rækta frá 700 til 1.300 milljarða trjáa í viðbót. Þetta eru ýmis auð svæði svo sem í almenningsgörðum og skógum en einnig á ýmsum öðrum landsvæðum sem ekki eru í annarri notkun.
Beittasta vopnið gegn loftslagsbreytingum
Að sögn Crowthers segja þessar niðurstöður okkur að tré séu beittasta vopn okkar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Hann vitnar til verkefnisins Drawdown sem er eitthvert viðamesta samvinnuverkefni vísindafólks í heiminum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Uppistaðan í því verkefni er að halda úti lista yfir eitt hundrað áhrifaríkustu raunhæfu aðgerðir sem tiltækar í loftslagsmálum.
Nú eru áttatíu aðgerðir á þessum lista. Í fyrsta sæti sem mikilvægasta aðgerðin er betri kælitækni og þar á eftir er uppsetning á vindrafstöðvum en nýskógrækt er í fimmtánda sæti. Crowther telur að rannsóknir þeirra við Crowther Lab sýni að nýskógrækt hafi möguleikann á að verða sett í fyrsta sæti á þessum merka lista.
„Ef við fjölgum trjám á jörðinni um þúsund milljarða þýðir það að við fáum bindingu sem nemur hundruðum gígatonna, nokkuð sem svarar til að minnsta kosti tíu ára útblæstri af manna völdum í heiminum,“ sagði Crowther þegar hann kynnti rannsóknina nýju. Á vefnum CO2-Earth er áætlað að öll heimsbyggðin hafi losað tæplega 37 gígatonn af koltvísýringi árið 2017. Þess vegna yrði augljóslega mikið gagn að því fyrir loftslagið á jörðinni ef bundin yrðu hundruð gígatonna í nýjum skógi. Það drægi úr hlýnun jarðarinnar.
Líffjölbreytni og loftslagsbreytingar
Crowther segir að jafnvel þótt ekki sé raunhæft að ætla að skógur verði ræktaður á öllum þeim svæðum sem kortlögð hafa verið í rannsókninni sem möguleg skógræktarsvæði sé vaxandi umræða um það í heiminum að trjárækt sé mikilvægur liður í því að bjarga jörðinni. Vísindamaðurinn ungi segir að skógrækt geti stuðlað að lausn á tveimur helstu vandamálum samtímans, loftslagsbreytingum og minnkandi líffjölbreytni í vistkerfum jarðarinnar.
Það sem er svo fallegt við skógrækt, segir Thomas Crowther, er að allir geta lagt hönd á plóginn. Trén geri líka fólkið glaðara í þéttbýlinu
Til fróðleiks
Kolefnisviðtakar
-
Kolefnisforðabúr sem geta stækkað og þar með tekið upp CO2 sem annars færi út í andrúmsloftið.
-
Heimshöfin eru stærsti kolefnisviðtakinn á jörðinni og taka í sig um þriðjunginn af því kolefni sem losnar við brennslu jarðefnaeldsneytis.
-
Kolefni binst líka í jarðvegi og skógum. Í Kyoto-samkomulaginu 1997 var aukinn lífmassi viðurkenndur sem kolefnisviðtaki. Þar með varð binding í jarðvegi og skógi liður í loftslagsbókhaldinu.
-
Árið 2010 áætlaði FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, að í lífmassa jarðarinnar væru fólgin 289 gígatonn af kolefni og það hefði minnkað úr 299 gígatonnum frá árinu 1990.
-
Í jarðvegi var áætlað að fælust 292 gígatonn og 67 í dauðum plöntuleifum. Samanlagt nam þetta þreföldu magni koltvísýrings í lofthjúpnum.
Skógareyðing
-
Í byrjun 20. aldar óx skógur á um 50 milljónum ferkílómetra á jörðinni. Nú nemur þessi tala 40 milljónum ferkílómetra.
-
Alþjóðabankinn áætlaði í fyrra að skóglendi á jörðinni hefði minnkað um 1,3 milljónir ferkílómetra frá árinu 1990.
-
Þetta samsvarar svæði sem er stærra en Suður-Afríka og að skóglendi jarðarinnar hafi minnkað um sem nemur 800 fótboltavöllum á hverri klukkustund.
-
Mest hefur skógareyðingin verið í Suður-Ameríku, löndum Karíbahafsins og í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Í Amason-frumskóginum jókst skógareyðing um 29 prósent frá 2015 til 2016.
-
Tveir þriðju skóga heimsins vaxa í tíu löndum, Rússlandi, Brasilíu, Kanada, Bandaríkjunum, Kína, Kongó, Ástralíu, Indónesíu, Perú og á Indlandi.