Um áttatíu manns sóttu málþing um skjól, skóga og skipulag í húsi Orkuveitu Reykjavíkur s.l. föstudag. Málþingið var haldið í samstarfi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Félags íslenskra landslagsarkitekta FÍLA og Arkitektafélags Íslands AÍ.

Framsögu höfðu auk Alexander Robertson (Sandy), Sigurður Harðarson arkítekt og Yngvi Þór Loftsson landslagsarkítekt, en Auður Sveinsdóttir stýrði þinginu. Markmið þess var m.a. að efla umræðu og fræðslu um mikilvægi samspils skipulags ? skógar og skjóls og gefa þeim er vinna að og hafa áhuga á skipulagsmálum tækifæri til að auka við þekkingu sína á hlutverki skjólbelta og trjágróðurs til skjóls. Einnig að gefa skipulagsfólki og skógræktarmönnum tækifæri til að hittast, fræðast og skiptast á skoðunum. 

Yngvi Þór Loftsson sagði m.a. frá því hvernig skipulag skilgreinir landsvæði utan þéttbýlissvæða og hvernig það snýr að nýskógrækt.  Sigurður Harðarsson sýndi m.a. myndir af tilraunum sem gerðar eru í tilraunastofum og sýna hvernig hönnun og afstaða bygginga getur haft áhrif á vinda umhverfis hús. Sérstaka athygli vakti model-tilraun Sandy sem sýndi skjóláhrif gróðurs með þurrísblæstri.