Ný skýrsla komin út hjá Landgræðslunni

Út er komin hjá Landgræðslunni skýrsla um hagkvæmni þess að nýta lífrænan úrgang til landgræðslu. Í skýrslunni er bent á marg­þættan ávinning af betri nýtingu lífræns úrgangs. Mengun minnki, meira land verði grætt upp, sóun fosfórs verði minni og minni tilbúinn áburður fluttur inn sem hafi gjaldeyrissparandi áhrif á sam­félagið allt.


Sagt er frá skýrslunni á vef Landgræðslunnar, land.is. Þar kemur fram að forgangsverkefni í formennskuáætlun Íslands 2014-2016 í Nor­rænu ráðherranefndinni hafi verið áhersla á Norræna lífhagkerfið (NordBio). Sem hluta af þessu verkefni fékk Landgræðsla ríkisins styrk til að kanna hagkvæmni þess að nýta lífrænan úrgang til landgræðslu. Skýrslan sem nú er kom­in út ber heitið Lífrænn úrgangur til land­græðslu. Hana skrifaði Magnús H. Jó­hanns­son, sviðstjóri þróunarsviðs Land­græðsl­unnar.

Styrkirnir urðu þrír, og í grunninn var verkefnið því þrískipt: 1) að gera kostnaðargreiningu á nýtingu lífræns úrgangs og tengja við hentug landgræðslu­svæði, 2) að taka saman grunn upplýsingar sem sveitarfélög gætu nýtt sér við koma á nýtingu á seyru til uppgræðslu og 3) að kanna leiðir til þess að efna til samstarfs sveitarfélaga um nýtingu á seyru til uppgræðslu.

Síðasti hluti verkefnisins er skemmst á veg kominn þar sem verkefni af þessu tagi þurfa talsvert langa meðgöngu og undirbúning, lengri en rúmast innan þess tímaramma sem lagt var upp með í upphafi. Niðurstöður verkefnisins varpa ljósi á tækifærin sem felast í aukinni notkun lífræns úrgangs til landgræðslu, kostnaðinn við hana, nauðsynleg tæki, tól og innviði auk mögulegs samstarfs sveitarfélaga um þessi mál.

Að auki eru gerðir útreikningar á fosfórjöfnuði Íslands. Útreikningar á fosfórjöfnuði landsins skipta máli til að setja verðmæti fosfórs í hagrænt íslenskt samhengi sem og alþjóðlegt. Sýnt er fram á hversu mikill fosfór er fluttur inn, hvernig honum reiðir af í íslenska lífhagkerfinu og hversu mikils virði það er að meðhöndla hann á sjálfbæran hátt.

Texti: Pétur Halldórsson