Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri úrvinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni, talar hér á fundinum á Selfossi þegar samningur Félags skógareigenda á Suðurlandi við SASS var undirritaður. Mynd Hreinn Óskarsson.
Afurðateymi hefur störf og rekstrarfélag í undirbúningi á Suðurlandi
Sex manna teymi Skógræktarinnar og Landssamtaka skógareigenda um úrvinnslu- og markaðsmál hittist á sínum fyrsta fundi á Hallormsstað í síðustu viku. Fleira er að gerast í þessum efnum því á föstudag skrifuðu Landssamtök skógareigenda undir samning við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um styrk til stofnunar rekstrarfélags um markaðsmál skógarafurða.
Fyrsti fundur afurðateymis
Á vef Landssamtaka skógareigenda (LSE), skogarbondi.is, er greint frá því samstarfi sem efnt hefur verið til við Skógræktina um vöruþróun, markaðssetningu og sölumál. Teymi skipað þremur fulltrúum frá hvorum þessara aðila hélt sinn fyrsta fund í liðinni viku á Hallormsstað.
Fyrsta verk hópsins verður að líta yfir sviðið og taka saman þá starfsemi og verkefni sem nú þegar eru komin í gang og raða þeim verkefnum sem fram undan eru í forgangsröð í samræmi við stefnu Skógræktarinnar og LSE. Í lok fundarins á Hallormsstað sýndu þau Þór Þorfinnsson skógarvörður og Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður fundarfólki viðarvinnsluna á staðnum og þær afurðir sem þar eru unnar.
Björn B. Jónsson er verkefnisstjóri úrvinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni og auk hans eru fulltrúar Skógræktarinnar í teyminu þau Bergrún Arna Þorsteinsdóttir og Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri fjármálasviðs. Fulltrúar LSE í teyminu eru Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður, Hrönn Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri og Gunnar Sverrison, skógarbóndi í Hrosshaga í Biskupstungum. Á vef LSE kemur fram að samtökin bindi miklar vonir við störf teymisins og fulltrúarnir hlakki til framhaldsins.
Styrkur til stofnunar rekstrarfélags
Þá er líka tíundað á vef LSE að Félag skógareigenda á Suðurlandi hafi boðað til félagsfundar hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í Fjölheimum á Selfossi á föstudaginn var. Tilefni fundarins var að skrifa undir samning við SASS um styrk til undirbúnings og stofnunar rekstrarfélags sem móta skal stefnu, greina tækifæri í úrvinnslu og makaðssetningu skógarafurða og kynna verkefnið. Verkefnið er skilgreint áhersluverkefni en þau eru unnin á grundvelli Sóknaráætlunar Suðurlands, og fjármagnið kemur úr áætluninni.
María E. Ingvadóttir, formaður stjórnar félags skógarbænda á Suðurlandi, og Hrafnkell Guðnason frá Háskólafélagi Suðurlands undirrituðu samninginn og ávörpuðu samkomuna. María ræddi í stuttu erindi um framtíðaruppbyggingu skógarauðlindarinnar. Auk þeirra héldu Björn B. Jónsson, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdasjóri LSE, og Þórður Freyr Sigurðsson, sviðstjóri þróunarsviðs SASS, stuttar ræður. Skógareigendur fjölmenntu á fundinn og þar komu ýmsir aðrir góðir gestir m.a. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Björn B. Jónsson, verkefnisstjóri úrvinnslu- og markaðsmála hjá Skógræktinni, og Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar.
Óhætt er að taka undir með LSE um að margt sé að gerast í skógræktarmálum og mikil tækifæri að skapast í uppbyggingu á þessari ungu atvinnugrein. Rétt eins og Landssamtök skógareigenda gera á síðu sinni óskar Skógræktin Félagi skógareigenda á Suðurlandi til hamingju með styrkinn og velfarnaðar í þeim störfum sem fram undan eru.