Ilmbjörk hafði hæstu tíðni gróðursetinna trjáplantna árið 2004 eða 1.572.000 plöntur. Þetta eru rúmlega 70.000 plöntur umfram rússalerki en það hefur verið ein algengasta trjátegundin til plöntunar frá árinu 1991 (Arnór Snorrason 2005). Þetta kemur fram í 2. tbl. Skógræktarritsins 2005 (Einar Gunnarsson 2005). Næst koma sitkagreni/hvítsitkagreni, stafafura og alaskaösp.

Plantað var alls um 5,6 milljónum skógarplantna árið 2004, sem er meira en nokkru sinni fyrr en þó minna en langtímaáætlanir gerðu  ráð fyrir skv. Einari Gunnarssyni.

Í Skógræktarritinu er einnig að finna greinar um uppgræðslu ?ónýtts? lands með lúpínuskógrækt, um framandi og ágengar trjátegundir í íslenskum skógum og ógn eða gagnsemi þeirra, grein um fugla og ber, útbreiðslu birkis á Íslandi og sagt er frá Nýfundnalandsferð Skógræktarfélags Íslands fyrr á þessu ári.

Ritið fæst hjá Skógræktarfélaginu, www.skog.is