Alla fótboltavellina má ... leggja niður og planta þar trjám og öðrum gróðri svo að dalurinn verði skógi vaxinn (Guðmundur Andri Thorsson, Fréttablaðið 28. júní 2004)

Árið 1871 kom Sigurður Guðmundsson málari fram með þá hugmynd að gera Laugardalinn í Reykjavík að íþrótta- og útivistarsvæði fyrir höfuðborgarbúa. Hann áleit dalinn mjög vel fallinn til skógræktar og ræktunar skrautblóma og sá fyrir sér fólk í skemmtigöngum og hvíldarstaði í fallegum rjóðrum. Hann var kjörinn í byggingarnefnd borgarinnar árið 1869. Hugmyndir hans lágu í þagnargildi til ársins 1943, þegar borgarráð samþykkti að hrinda þeim í framkvæmd. Mýrin í dalnum var ræst fram árið 1946. Eiríkur Hjartarson, rafvirki, hafði byggt sér einbýlishús í dalnum árið 1929 og nefnt það Laugardalur, sem varð síðan nafnið á dalnum. Hann var ákafur skógræktarmaður og gróðursetti fjölda trjáa vestan núverandi legu grasagarðsins. Þar eru nú mörg hæstu trjáa borgarinnar. Borgin keypti lundinn árið 1955 og miklu hefur verið aukið við hann síðan, meðal annars með Grasagarðinum í Reykjavík. Jafnframt hafa fjölmörg íþróttamannvirki verið reist í Laugardal á undanförnum áratugum. Heimild: nat.is (Iceland Travel Guide)

Í grein sem Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur birti í Fréttablaðinu mánudaginn 28. júní s.l. er honum, að eigin sögn, "heitt í hamsi ... þegar [hann] leiðir hugann að hernámi íþróttahreyfingarinnar á þessum stað þar sem ætti að vera stór skógur með íkornum, broddgöltum og íssölum, en ekki undirlagður af sex tómum fótboltavöllum og risahöllum fyrir fólk í íþróttum". Greinina má nálgast hér, á www.visir.is.