Keðjusagir eru nú þandar sem aldrei fyrr á Íslandi. Mjög mikið er grisjað í þjóðskógunum og hefur verið síðan í ágúst. Þá er Skógrækt ríkisins kunnugt um talsverða grisjun hjá skógræktarfélögum. Mest hefur verið grisjað á Stálpastöðum í Skorradal, Hallormsstaðaskógi, Haukadalsskógi, Þjórsárdal og Þórðarstaðaskógi í Fnjóskadal. Trjátegundirnar eru sitkagreni, rauðgreni, rússalerki, stafafura og birki. Þá hefur umtalsvert verið grisjað af alaskaösp úr skjólbeltum á Tumastöðum í Fljótshlíð. Þetta er til marks um hvað okkur hefur þrátt fyrir allt tekist að skapa hér fjölbreytta og framleiðslumikla skógarauðlind, þótt ung sé að árum.

Meirihluti grisjunarinnar er unnin af verktökum í kjölfar útboða og eru fimm verktakar með samtals hátt í 20 skógarhöggsmenn að vinna í þjóðskógunum nú þegar þetta er skrifað. Nánast allur viðurinn selst jafnóðum en hluti er geymdur í stæðum fram á næsta ár og látinn hálfþorna fyrir úrvinnslu. Það verð sem fæst fyrir viðinn dugar um það bil fyrir grisjunar- og útkeyrslukostnaði. Þannig felst ágóðinn einkum í því að fá skóginn grisjaðan auk atvinnusköpunar á þessum erfiðu tímum.

Skógræktarráðunautar, skógarverðir og annað starfsfólk Skógræktar ríkisins hafa í heilmiklu að snúast vegna þessa, t.d. við að skipuleggja grisjunina, mæla og meta skógarreitina fyrir og eftir grisjun, draga út (í þeim tilvikum þar sem verktakinn sér ekki um það) og fást við úrvinnslu, sölu og flutning á viðnum.

Veðrið hefur unnið með okkur þetta haust en nú eru dagar teknir að styttast og jólatrjáavertíðin að hefjast. Hins vegar er stefnt að útboðum fljótlega á áframhaldandi grisjun þegar dagar taka að lengjast á nýju ári. Er áætlað að meira verði grisjað þá en á árinu sem er að líða.

Myndin sem hér fylgir er tekin í stafafurulundi í Þórðarstaðaskógi sem grisjaður var í haust.


Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins