Rætt við skógræktarstjóra um landnotkun og loftslagsmál í Bændablaðinu
Í Bændablaðinu sem kom út í dag er ítarlegt viðtal við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Þröstur gagnrýnir í viðtalinu að þótt mikið sé talað um nauðsyn aðgerða í loftslagsmálum og meðal annars bindingu kolefnis bóli ekkert á aðgerðum eða fjárveitingum. Umræðan um loftslagsmál hafi oft og tíðum einkennst af upphlaupum og upphrópunum.
Rifjað er upp í blaðinu að framlög til skógræktar hafi náð raunhámarki miðað við verðlag árið 2005. Árið 2010 hafi framlagið verið skorið niður og aftur bæði 2011 og 2012. Síðan hafi þau að mestu staðið í stað en þó sé samdráttur um 30 milljónir frá síðasta ári. Þröstur segir orðrétt:
„Að mínu mati er þetta þvert á alla umræðu um loftslagsmál og yfirlýsingar um nauðsyn og skyldu okkar til að binda CO2 samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Það er mikið talað um loftslagsmálin en lítið sem ekkert verið gert í að auka CO2-bindingu hér á landi, hvorki með skógrækt né öðru.
Tökum sem dæmi umræðuna um endurheimt votlendis sem hefur farið mjög hátt undanfarið. Framlög til málaflokksins sem fara í gegnum Landgræðsluna voru á síðasta ári 20 milljónir og ekki hægt að gera mikið fyrir þá upphæð.“
Nota á allar mögulegar leiðir
Þröstur talar fyrir réttri og eðlilegri umræðu um þann flokk í loftslagssamningi SÞ sem eigi við landnotkun, breytingar á landnotkun og skógrækt. Hún hafi gjarnan einkennst af upphlaupum og upphrópunum. Skoðun hans sé sú að við eigum að nota allar mögulegar leiðir til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu, skógrækt, landgræðslu, endurheimt votlendis og breytingar á því hvernig land sé notað til beitar búfjár. „Við eigum að vinna saman að þessu öllu,“ segir Þröstur.
Í viðtalinu bendir Þröstur á að vegna þess að skógrækt hafi verið tekin með í reikninginn í Kíótó-bókuninni hafi Íslendingar þurft að leggja í mælingar og rannsóknir til að geta skilað áreiðanlegum tölum um bindingu íslensku skóganna. Ekki hafi þurft að skila sambærilegum gögnum vegna endurheimtar votlendis, almennrar landgræðslu eða landbótaverkefna á við Bændur græða landið. Þess vegna hafi minni rannsóknir verið gerðar í þeim efnum.
Nauðsynlegar rannsóknir hafnar
Vilji Íslendingar telja fram loftslagsávinning af slíkum aðgerðum verði gerðar kröfur um sambærilegar tölur um losun og bindingu og nú er aflað um skóga. Til að koma umræðunni á rökrænan grunn sé nauðsynlegt að sambærilegar rannsóknir verði gerðar á endurheimt votlendis eins og gerðar hafa verið í skógrækt. Landgræðsla ríkisins vinni nú að slíkum rannsóknum og eftir því sem þeim vindi fram verði hægt að tala um endurheimt votlendis á sama grunni og skógrækt hvað varðar bindingu. Rannsóknir og vöktun þurfi að fara fram samtímis og ráðast verði í endurheimtarverkefni á mismunandi stöðum til að ná að fanga breytileikann í árangri.
Því næst er rætt í viðtalinu um ýmsan breytileika í kolefnisbindingu skóga út frá mismunandi landgerðum, trjátegundum og fleiri þáttum svo sem markmiðum landeigandans. Þröstur segir ekki búið að fanga breytileikann sem óhjákvæmilega verði við endurheimt votlendis og nokkurra ára rannsóknir þurfi til að geta rætt um málið af skynsemi og svo raunhæft sé að bera saman möguleikana, til dæmis hvort sé betri kostur, bleyting eða skógrækt.
Engin opinber heildarstefna í skógrækt
Að síðustu er farið yfir þá samræmingu sem enn er unnið að eftir sameiningu nokkurra stofnana í Skógræktina 2016. Þröstur segir:
„Landshlutaverkefnin, sem voru fimm, og Skógrækt ríkisins voru sameinuð í eitt árið 2016 og síðan þá höfum við verið að samræma reglur um úthlutun fjármagns. Lögin eru góð sem slík en ná ekki til allra smáatriðanna og þess vegna höfðu reglur um hvernig ákveðin verkefni voru styrkt þróast á mismunandi hátt á milli landshlutaverkefnanna og núna erum við að vinna í að samræma reglurnar í samstarfi við Landssamband skógareigenda.“
Nefnt er að heildarstefna í skógrækt sem unnin var fyrir áratug hafi aldrei orðið að formlegri stefnu stjórnvalda, m.a. vegna ráðherraskipta. Í stefnunni er lögð áhersla á fimm meginþætti í skógrækt á Íslandi, uppbyggingu skógarauðlinda, skógarnytjar, verðmæta- og nýsköpun, samfélag, aðgengi og heilsu, umhverfisgæði og líffjölbreytni og loftslagsbreytingar.
Viðtalið við Þröst Eysteinsson má finna á bls. 24-25 í þriðja tölublaði Bændablaðsins 2018. Á forsíðu blaðsins er líka frétt með ágripi úr viðtalinu (sjá að neðan).
Bændablaðið tíundar einnig þróun fjárframlaga til skógræktar
Rétt er að vekja athygli einnig á fróðlegri grein Harðar Kristjánssonar, ritstjóra Bændablaðsins, sem er að finna í kjölfar viðtalsins við þröst á blaðsíðu 26 í blaðinu. Þar rekur hann þróun framlaga til skógræktar frá árinu 2005 og sýnir fram á að framlög til skógræktar séu ekki í neinum takt við yfirlýsingar um aðgerðir í loftslagsmálum. Í niðurlagi greinarinnar skrifar Hörður:
Varðandi samanburð á framlagi í nýjasta fjárlagafrumvarpinu við framlög á árunum strax eftir efnahagshrunið ber að geta þess að krónan er mun sterkari nú en þá svo krónutalan ein og sér segir ekki endilega alla söguna. Eigi að síður vekur athygli að krónutalan skuli lækka á milli áranna 2017 og 2018 þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um að Ísland eigi að vera fyrirmynd í loftslagsmálum. Í raun hefur lítið gerst annað í þeim efnum en að refsað hefur verið með kolefnisgjaldi þeim námsmönnum, fjölskyldufólki og einstaklingum á vinnumarkaði, öryrkjum og öldruðum sem telja sig nauðsynlega þurfa á bifreiðum að halda.