... segir nemandi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands

„Mér fannst mikilvægt að reyna að búa til eitthvað sem tengir fólk við skóginn og við íslenska menningu,“ segir einn nemenda á lokaári vöruhönnunardeildar Listaháskóla Íslands. Þau opna sýninguna Wood You í kjallara skólans í Þverholti í Reykjavík.

Fréttablaðið fjallar um málið í dag, 28. nóvember. Frétt blaðsins er á þessa leið:

Nemendur á lokaári vöruhönnunardeildar Listaháskóla íslands opna sýninguna Wood You í kjallara skólans í Þverholti.

Verkefnið var unnið í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur í Heiðmörk en þema verkefnisins var íslenskur viður. Einn nemendanna, Gael Corto Arcadio Jabali, segir sína upplifun af verkefninu hafa umfram allt verið félagslega. „Ég er alinn upp í Frakklandi þar sem er ekki bara litið á skóginn sem hluta af náttúrunni heldur sem hluta af iðnaðinum líka og einnig leikur hann svo stórt hlutverk í menningunni," segir Corto, en segir jafnframt að hans upplifun endurspegli ekki upplifun hópsins.

„Mér fannst mikilvægt að reyna að búa til eitthvað sem tengir fólk við skóginn og við íslenska menningu. Það var virkilega áhugavert að fá að kynnast skóginum hér svona náið og vinna svona nálægt hráefninu. Skógrækt Reykjavíkur á hrós skilið fyrir þá vinnu sem þeir eru að vinna og hversu vel þeir tóku á móti okkur. Þetta er hráefni sem við Íslendingar megum klárlega nota meira í iðnað hér heima og hefur mikla möguleika á því að stækka," segir hann. Sýningin verður opnuð í dag klukkan 14 og verður opin fram eftir degi og yfir helgina.

„Hluti af sýningunni er opnun heimasíðunnar okkar, www.wood-you.com, en þar er hægt að skoða öll verkefnin okkar ásamt myndböndum," segir Corto.


.