Nú á undanförnum vikum hefur stofnstærð sitkalúsar verið könnuð víðs vegar um land.  Á höfuðborgarsvæðinu er mikil lús og nú þegar eru tré farin að láta verulega á sjá.  Sama er að segja um fleiri staði á Suðvesturlandi, t.d. Selskóg hjá Grindavík, Reynivelli í Kjós og Akranes.

Í Borgarfirði og á Mýrum hefur ekki orðið vart við lús en eftir er að kanna ástand mála á öðrum svæðum á Vesturlandi.  Á Vestfjörðum er töluvert um lús á svæðinu frá Patreksfirði að Ísafirði, þó mismikið, verst er ástandið á Patreksfirði.  Barðaströnd, Ísafjarðardjúp og Strandir virðast vera laus við lús.  Á Norðurlandi hefur ástandið aðeins verið kannað á Akureyri og Siglufirði og á báðum stöðum er veruleg lús.

Á Austurlandi er mjög veruleg lús á svæðinu frá Breiðdalsvík og suður í Hornafjörð.  Aðrir hlutar Austurlands hafa ekki verið kannaðir.  Á Suðurlandi er veruleg lús í Mýrdal, Selfossi, Hveragerði, Ölfusi og á Laugarvatni.  Engin lús fannst hinsvegar í Haukadal, Reykholti í Biskupstungum, á Flúðum og á Kirkjubæjarklaustri.

Það er því full ástæða til að reikna með því að nú í haust verði faraldur í strandhéruðum, víðast hvar á landinu, en Borgarfjarðarsvæðið og innsveitir Suðurlands muni sleppa.  Nú í lok ágúst er áformað að gera allsherjar úttekt á skaðvöldum í skógum og eftir þann leiðangur munu upplýsingar liggja fyrir um stofnstærð sitkalúsar á þeim svæðum sem enn hafa ekki verið könnuð.

 

Guðmundur Halldórsson

Skordýrafræðingur, Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá