Í tilefni 40 ára vígsluafmælis færðu starfsmenn og velunnarar Rannsóknastöðvar skógræktar ríkisins stöðinni útskorna gestabók úr íslenskum álmi. Bókin var notuð á afmælishátíðinni í ágúst 2007 þó að hún væri þá ekki fullfrágengin. Þann 31. janúar s.l. afhentu gefendur stöðinni bókina fullbúna.

Á bókarspjaldið er útskorin mynd af blómskipan hlyns sem myndar eins og krónu trés sem vex upp úr l-inu í nafni Mógilsár. Þar undir eru ártölin 1967 til 2007. Á titilsíðu bókarinnar er útskorna teikningin í lit og fyrsta síða bókarinnar skrautrituð. Þar vefjast saman í stafnum H í orðinu hátíð birki og furutré. Á síðuna er ritað frumsamið ljóð Steinunnar Bjarneyjar Sigurðardóttur.


Í dag er orðin fertug mærin Mógilsá.

Mærin fæddist klæðlaus eins og gengur.

Ásýnd hennar núna er öðruvísi en þá.

Ekki skortir græna kuflinn lengur.

Hönnuður bókarinnar er Þorbergur Hjalti Jónsson, skógfræðingur og nýráðinn Skógarvörður á Suðurlandi. Bókina skar systir hans Anna Lilja Jónsdóttir, iðnmeistari í myndskurði. Steinunn höfundur ljóðsins er móðir þeirra. Þau systkinin hafa unnið fleiri verk saman. Þar má nefna veggmynd í tré sem 25 ára afmælisárgangur Menntaskólans á Akureyri gaf skólanum árið 2004. Mynd af verkinu er hér á siðunni.

Anna Lilja Jónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 1954. Hún lauk stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1974, B.Ed.-próf frá Kennaraháskóla Íslands 1980 og 30 eininga framhaldsnámi í handmenntum frá Kennaraháskóla Íslands 1983. Hún stundaði útskurðarnám í Skurðlistarskóla Hannesar Flosasonar í um tuttugu ár, með hléum. Hún lauk burtfararprófi  í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1998 og myndskurði 1999. Í námi sínu í Iðnskólanum naut hún handleiðslu Sveins Ólafssonar iðnmeistara í myndskurði. Hún lauk sveinsprófi í myndskurði árið 2000 ásamt Erni Sigurðssyni húsgagnasmíðameistara. Þá voru 46 ár liðin frá því að tekið hafði verið sveinspróf í greininni. Sveinsbréf þeirra voru afhent með viðhöfn í Þjóðmenningarhúsinu 14. nóvember 2000 að viðstöddum Iðnaðar- og Menntamálaráðherra. Anna Lilja lauk meistaraprófi í myndskurði frá Iðnskólanum í Reykjavík vorið 2002 og fékk meistarabréf í iðninni í mars 2003. Hún hefur kennt útskurð meðal annars við kvöldskóla Iðnskólans í Reykjavík.


frett_05022008(2)