Barrskógur í Kebekk-fylki í Kanada.
Barrskógur í Kebekk-fylki í Kanada.

Ólíkt loftslag leitt til ólíkrar þróunar

Rannsóknir kanadískra vísindamanna varpa ljósi á ástæður þess hve ólíkir norðlægir barrskógar Norður-Ameríku eru barrskógum í norðvestanverðri Evrópu. Sýnilegastur er munurinn á skógarbotninum. Ólíkt loftslag hefur leitt af sér ólíka þróun.

Rudy Boonstra, líffræprófessor við Torontó­háskóla í Scarborough, hefur unnið að vett­vangsrannsóknum í Norður-Kanada í meira en fjóra áratugi, aðallega við Kluane Lake, rannsóknarstöð kanadísku heimskauta­stofnunarinnar í Júkon. Hann er því flestum kunnugri hinum einstöku og víðfeðmu vist­kerfum kanadíska norðursins. Um vistkerfi barrskóganna í Kanada hefur hann skrifað bók ásamt fleirum. Þegar hann fór til Finnlands á miðjum tí­unda áratug liðinnar aldar til að aðstoða samstarfsmann við vettvangsrannsóknir tók hann eftir hvað barrskógarnir þar voru ólíkir þeim kanadísku. Það sama sá hann í Noregi skömmu síðar og tók að velta fyrir sér hvernig á þessu gæti staðið.

Við fyrstu sýn virðast skógarnir vestan hafs og austan svipaðir. Í þeim hvorum tveggja vaxa aðallega barrtré og á stangli eru lauftré á borð við aspir. En þar með er upptalið það sem þessir skógar eiga sameiginlegt, segir Boonstra. Meginmunurinn sé aug­ljós­astur á skógarbotninum. Í Kanada vaxi mikið af lágvöxnum trjákenndum tegundum eins og víði og birki en í skógum Norðvestur-Evrópu, svo sem í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi, er skógarbotninn aðallega vaxinn lágvöxnu lyngi eins og aðalbláberjum.


Ólíkt veðurfar

Ástæðuna fyrir þessum mun rekur Boonstra til mismunandi loftslags. Þar með liggi í augum uppi að loftslags­breyt­ingar séu líklegar til að hafa talsverð áhrif á gróður­inn í norðlægu barrskógunum og þær dýra­tegundir sem þrífast þar. Þótt gagnaöflun sé ekki lokið segir Boonstra að vísbend­ingar séu um að vistkerfi barr­skóg­anna séu þegar farin að breytast. Og þær breyt­ingar geti orðið verulegar. Boonstra nefnir í því samhengi breytingar á kolefnis­hring­rásinni og samspili rándýra og veiði­bráðar þeirra.

Kanada er ógnarstórt land, nærri hundrað sinnum stærra en Ísland. Helmingur landsins er vaxinn barrskógi. Sá barrskógur hefur þróast öðruvísi en barrskógur­inn í Norðvestur-Evrópu, segir Boonstra. Kaldara er og þurrara á vetrum í kanadísku skógunum. Yfir þá leggst þunn og létt snjóhula, gisin lausamjöll. Í Skandinavíu er veturinn votviðrasamari og mildari en líka snjóþyngri og snjórinn verður því dýpri og þéttari í sér. Mildara loftslag helgast af vestlægum vindum sem blása þangað hlýju lofti frá Norður-Ameríku um Karíbahaf og austur um Atlantshaf.

Ólík þróunarsaga

Þetta ólíka veðurfar gerir að verkum að lífverur bæði plöntu- og dýraríkisins hafa þróast með ólíkum hætti austan hafs og vestan. Einkennandi á skógarbotni kanadísku skóganna eru hinar harðgeru runnategundir en einnig tíu ára sveifla snjó­þrúgu­hérans (Lepus americanus) og kanadísku gaupunnar. Hinum megin Atlantsálans vaxa lyngtegundir sem eru við­kvæm­ar fyrir kulda og undir snjónum leynast þreyja þorrann og góuna smávaxnar nagdýra- og marðartegundir með þriggja til fjögurra ára stofnsveiflu. Þar er eru stofnar stærri skepna eins og elga einnig þéttari en í Kanada.


Á báðum svæðunum hafa rándýrin þróast eftir veiðibráðinni og veiðibráðin eftir gróðr­inum, segir Boonstra. Ýmsa aðra þætti sem gætu skýrt þennan mun á kanadísku og skandi­navísku skógunum hefur hann einn­ig athugað ásamt samstarfsfólki sínu, þar á meðal athafnir mannsins, þéttleika annarra rándýra og stærri spen­dýrateg­unda. Niðurstaðan er sú að það sé lofts­lagið sem skipti sköpum umfram annað.

Að þessum rannsóknum vann vísindafólk vítt og breitt um Kanada og Noreg og um þær hefur verið birt grein í tímaritinu BioScience. Þær nutu styrks bæði frá NSERC, rannsóknarráði Kanada um náttúruvísindi og verkfræði, og norska vísindaráðinu, Noregs forskingsråd.

Kolefnishringrásir í hættu?

Barrskógar norðursins eru mikilvæg vistkerfisbelti á jörðinni enda ná þeir yfir um 11 prósent af landsvæðum jarðar­inn­ar og eru fjórðungur þekjandi skóga á jörðinni. Þeir eru samfelld og órofin kerfi sem leika mikilvægt hlutverk í kolefnis­hringrásum jarðarinnar og gera jörðinni kleift að fóstra það líf sem á henni þrífst nú.

Rudy Boonstra, líffræprófessor við Torontóháskóla í Scarborough, segir engan vafa leika á því að hitabreytingar og breytingar á snjóalögum muni hafa áhrif á þessi miklu vistkerfi.

Greinin í BioScience:

Rudy Boonstra et al. Why Do the Boreal Forest Ecosystems of Northwestern Europe Differ from Those of Western North America?

Heimild: Science Daily
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson