#Vesturameríkuskógar2013

Frá Tenaya-vatni til Kerlingarár

Á árunum 1936-1938 flutti Skógræktin inn plöntur frá norskum gróðrarstöðvum og framræktaði í gróðrarstöðvum sínum á Hallormsstað, Vöglum og í Múlakoti. Af þessum innflutningi er elsta sitkagrenið á Íslandi þekktast, en allmörg tré af nokkrum tegundum frá þessum tíma finnast í görðum og skógarlundum víða um land. Þeirra á meðal er murrayana-furan sem myndar lítinn lund innan við Kerlingará á Hallormsstað.

Hlynur Gauti Sigurðsson við myndarlega murrayana-furu og sýnir okkur hversu sverar þær eruMurrayana-fura var áður talin sérstök tegund en er nú flokkuð sem undirtegund stafafuru, þ.e. Pinus contorta ssp. murrayana. Hún vex hátt til fjalla í Sierra Nevada og Cascade-fjöllum í vestanverðum Bandaríkjunum og myndar þar gjarnan skógarmörk. Íslendingarnir sem áttu leið um hæsta hluta Sierra Nevada í byrjun október 2013 gengu um furulund við Tenaya-vatn, sem sjá má á meðfylgjandi myndum. Af tilviljun hefur þetta svæði sloppið við skógareld í nokkur hundruð ár og fururnar því náð þeirri stærð sem raun ber vitni. Þetta er óvenjulegt á heimaslóðum stafafuru þar sem skógareldar eru annars algengir. Eins og sjá má voru fururnar ekki sérlega háar, þær hæstu innan við 20 m, enda hátt til fjalla. En sverleikinn var tilkomumikill. 

Nærmynd af stofni murrayana-furu við Tenaya-vatn í KlettafjöllunumMurrayana-furan við Kerlingará er orðin um 15 m há og stefnir í að verða svipuð furunum við Tenayavatn. Murrayana-furur eru einnig til í kvæmatilraunum á nokkrum stöðum á Íslandi en vaxa fremur hægt samanborið við önnur stafafurukvæmi. Furan við Tenaya-vatn er sennilega dæmi um harðgerðara kvæmi en nauðsynlegt er fyrir láglendi Íslands.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson
Fréttin var uppfærð 26.10.2021

 Glæsileg tvístofna murrayana-fura við þjóðveginn