Umsóknarfrestur til 31. janúar fyrir sjálfboðaliða á komandi sumri

Tveir sjálfboðaliðar sem störfuðu við land­bætur og stígagerð á Þórsmörk og ná­grenni síðasta sumar hafa sent frá sér skemmti­legt myndband sem gefur innsýn í það mikil­væga starf að vernda náttúru svæðis­ins og útbúa vandaða aðstöðu til göngu­ferða. Nú er auglýst eftir sjálfboða­liðum fyrir komandi sumar og rennur umsóknarfrestur út í janúarlok.

Sjálfboðaliðar hafa komið frá öllum heims­álfum undanfarin ár til að vinna við ýmis verk­efni á Þórsmerkursvæðinu. Til þess er tekið hversu vel stígamannvirki á svæðinu eru felld að landslaginu og hversu vel hefur tekist að lagfæra rofsár og aðrar skemmdir sem orðið höfðu vegna ágangs ferðafólks. Markvissum aðferðum er beitt til þess að hindra að vatn og vindur geti unnið á rofgjörnum jarðveginum. Íslenskt timbur er notað í brýr, tröppur, palla og önnur stígamannvirki og markmiðið er að mannvirkin sjáist sem minnst og líti helst út fyrir að hafa verið þarna alla tíð.


Sjálfboðaliðahópar verða ýmist hálfan mán­uð eða sex vikur að störfum í sumar en að auki eru flokksstjórar sem dvelja enn lengur á svæðinu, taka þátt í skipulagningu starfs­ins, fara fyrir hópum og stýra verki. Ekki er krafist reynslu af stígavinnu því allir sjálf­boða­liðar fá þjálfun í upphafi á sérstöku námskeiði. Fólk sem valið er til sjálfboða­starfa úr hópi umsækjenda sér sjálft um að koma sér til Íslands en ekki er krafist þátt­tökugjalds.

Sjálfboðastörfin á Þórsmörk eru í anda þess sem þekkist á verndarsvæðum víða um heiminn og þetta eru störf sem ekki er víst að yrðu unnin ef sjálf­boða­liða nyti ekki við. Sjálfboðaliðarnir taka því ekki störf frá öðrum. Fyrir sjálfboðaliðana er þátttakan ævintýri og tækifæri til að leggja sitt til umhverfisverndar og betri heims. Þau öðlast mikilvæga reynslu, kynnast og starfa með fólki frá ólíkum löndum og næla sér í gott vegarnesti út í lífið.

Þórsmörk Trail Volunteers

Johnny Rolt og Ollie Campbell voru meðal sjálboðaliða sem störfuðu á Þórsmörk síðastliðið sumar. Þeir eru greini­lega liðtækir kvikmyndagerðarmenn, í það minnsta ef marka má stutta mynd sem þeir hafa nú sent frá sér og sagt er frá á vefsíðu sjálfboða­starfsins á Þórsmörk, Thórsmörk Trail Volunteers. Myndin gefur innsýn í reynslu þeirra sem sjálf­boða­liða, sýnir daglegt líf í bækistöðvunum á Þórsmörk, Goðalandi og við Laugaveginn.

Áhugasömum má benda á nánari upplýsingar um sjálfboðastarfið á Þórsmörk og það skal áréttað að umsóknar­frest­ur­inn rennur út 31. janúar.

Texti: Pétur Halldórsson
Skjámyndir úr myndbandinu: Johnny Rolt