Asparskógur í Múlakoti. Mynd: Hrafn Óskarsson
Asparskógur í Múlakoti. Mynd: Hrafn Óskarsson

Rannsóknarverkefni um kolefnisbúskap í framræstum mýrum

Á haustdögum er stefnt að því að hefja mælingar undir merkjum nýs rannsóknarverkefnis sem hlotið hefur heitið Mýrviður. Í verkefninu verður mæld binding og losun gróðurhúsalofttegunda frá skógi sem ræktaður er í framræstri mýri.

Meðal þess sem gera þarf áður en mælingar hefjast er að leggja rafmagn að mælingastaðnum í Sandlækjarmýri í Gnúpverjahreppi. Þar er gömul mýri sem ræst var fram og tilgangur verkefnsins er að meta hversu mikið kolefni binst í þeim asparskógi sem nú vex þar upp.

Rannsóknarverkefni þetta er óbeint framhald þeirra rannsókna sem Brynhildur Bjarnadóttir skógvistfræðingur gerði í doktorsverkefni sínu. Þar rannsakaði hún inn- og útflæði kolefnis í íslenskum lerkiskógi í Vallanesi á Héraði og nálægu bersvæði. Til þess verkefnis voru fengin góð mælitæki sem ástæða þykir til að nýta áfram til að mæla kolefnisbúskap í íslenskri náttúru.


Asparskógurinn í Sandlækjarmýri


Brynhildur tekur þátt í Mýrviðarverkefninu fyrir hönd Háskólans á Akureyri. Fyrir hönd Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá starfa að því Bjarki Þór Kjartansson, landfræðingur og doktorsnemi, og Edda Sigurdís Oddsdóttir skógfræðingur. Þá er Bjarni Diðrik Sigurðsson, skógvistfræðingur og prófessor, fulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfinu.

Hér má sjá uppsetningu mælitækjanna í Vallanesi á Fljótsdalshéraði.
Í mastrinu er gasgreinir, vindmælir og inngeislunarmælir. Stjórnstöð
mælitækjanna er fest á mastrið og þar er tölva sem skráir niður
allar mælingar.

Brynhildur segir stefnt að því að tækjunum verði komið upp í Sandlækjarmýri í sumar og mælingar geti hafist í haust áður en vetur gengur í garð. Mælitækin verða meðal annars í mastri ofan við trjátoppana og mæla þar kolefnisflæði að og frá vistkerfinu. Einnig er meiningin að meta kolefnisforða vistkerfisins, magn lífræns efnis sem fer út með vatni og seinna meir líka hláturgas (N2O) og metan (CH4) sem eru mikilvægar gróðurhúsalofttegundir, sérstaklega algengar á mýrlendum svæðum. Að auki verða gerðar veðurfarsmælingar, mældur lofthiti, jarðvegshiti á mismunandi dýpi, úrkoma, vindur og inngeislun frá sól. Mælingarnar þarf að gera a.m.k. í 3-4 ár til að hægt sé að sýna fram á að  mælingar séu marktækar og birta megi vísindalegar niðurstöður. Meginrannsóknarspurningin er hversu mikið kolefni skógurinn bindur árlega og til að svara því með áreiðanlegum hætti þarf að gera mælingar allt árið.

Eins og gefur að skilja ganga mælitækin fyrir rafmagni. Í þeim mælingum sem Brynhildur gerði í doktorsverkefni sínu var notast við færanlega rafstöð og vindmyllu til að knýja tækin en það reyndist misjafnlega. Ekki er gott þegar hlé verða á mælingum vegna bilana og því gott að geta nýtt veiturafmagn til að gera mælingar sem stöðugastar og áreiðanlegastar. RARIK sér um að leggja streng að svæðinu og koma upp úttaki. Úr því verður svo lögð lagnabrú inn á mælingasvæðið.

Verkefnið nýtur styrks úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar upp á 2,5 milljónir króna.

Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar um verkefnið.