Lunginn úr starfsmannahópi Skógræktar ríkisins haustið 2014 þegar haldinn var starfsmannafundur í Fl…
Lunginn úr starfsmannahópi Skógræktar ríkisins haustið 2014 þegar haldinn var starfsmannafundur í Fljótshlíð. Myndin er tekin í Múlakoti. Mynd: Pétur Halldórsson

Landsmenn þekkja vel til stofnunarinnar samkvæmt nýrri könnun

Viðhorf þjóðarinnar til Skóg­ræktar ríkisins er mjög jákvætt samkvæmt nýrri könnun sem Maskína hefur gert fyrir stofn­unina. Af 32 ríkisstofnunum sem spurt var um lendir Skógrækt ríkisins í einu af efstu sætunum. Skógræktin lenti sömuleiðis ofar­lega þegar spurt var hversu vel eða illa fólk þekkti til 29 ríkis­stofnana. Jákvæðni fólks til stofn­un­ar­inn­ar eykst með hækk­andi aldri.

Þegar spurt var hversu já­kvætt eða nei­kvætt fólk væri gagnvart Skógrækt ríkisins reyndist þriðj­ungur svarenda mjög jákvæð­ur, 33,5%. Fremur jákvæð reyndust vera 43,4% og samanlagt eru því fremur jákvæð og mjög jákvæð 76,9 prósent svarenda. Af því má draga þá ályktun að þrír fjórðu þjóðarinnar séu jákvæðir í garð Skógræktar ríkisins. Jafnframt kemur í ljós að sárafáir eru neikvæðir út í stofnunina. Mjög nei­kvæðir reyndust aðeins vera þrír af þeim 812 sem svöruðu eða 0,3% allra þátttakenda sem voru 857. Fremur neikvæðir voru 22 talsins, 2,7 prósent en 20% í meðallagi. Þátttakendur sem neituðu að svara voru 45.

Jákvæðnin eykst með aldri

Þegar svörin eru greind eftir bakgrunni fólks kemur í ljós að afstaða fólks til Skógræktar ríkisins er heldur jákvæðari eftir því sem fólk er eldra. Einnig er það fólk jákvæðara fyrir stofnuninni sem þekkir betur til hennar.

Ekki marktækur munur eftir stjórnmálaflokkum

Ekki reynist vera tölfræðilega marktækur munur á viðhorfum fólks til Skógræktar ríkisins eftir því hvaða stjórn­mála­flokka það myndi kjósa í dag. Kjósendur vinstri grænna virðast einna jákvæðastir. Rétt rúm 84 prósent þeirra mælast jákvæð í garð Skógræktar ríkisins. Næstir koma kjósendur Bjartrar framtíðar en minnst jákvæðir reyndust vera kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Í röðum sjálfstæðismanna voru líka flestir sem lýstu sig neikvæða í garð Skógræktar ríkisins eða 7,3%. Þótt munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur má til gamans birta töflu sem sýnir afstöðu þátttakenda með tilliti til stjórnmálaflokka:

Hvaða flokk myndir þú kjósa í dag? Gild svör Jákvæð(ur) Í meðallagi Neikvæð(ur)
Bjarta framtíð 13 83,6 16,4 0,0
Framsóknarflokkinn 69 77,0 20,6 2,3
Pírata 226 79,6 18,1 2,4
Samfylkinguna 57 75,8 22,3 1,9
Sjálfstæðisflokkinn 111 67,7 25,0 7,3
Vinstrihreyfinguna - grænt framboð 63 84,1 14,7 1,3

Þriðjungur þekkir vel til SR

Þjóðin virðist þekkja Skógrækt ríkisins nokkuð vel ef marka má könnunina. 32% svarenda þekkja vel til hennar en tæplega 49% í meðallagi vel eða illa. Aðeins rúm 5% sögðust þekkja mjög illa til stofnunar­innar. Þekking svarenda hækkar með hækkandi aldri því 42,9 prósent 55 ára og eldri reynast þekkja vel til Skógræktar ríkisins en aðeins 20,2% þeirra sem eru 20 ára eða yngri. Munur á afstöðu kynjanna er nánast enginn og ekki tölfræðilega marktækur.

Könnunina gerði Maskína fyrir Skógrækt ríkisins til að kanna viðhorf Íslendinga til stofnunarinnar og þekkingu þeirra á henni. Könnunin var lögð fyrir svokallaða Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 3.-9. mars. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára tóku þátt í henni, fólk af öllu landinu.

Svarendur í könnuninni voru 857. Gögnin voru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá. Þetta er gert svo svörin endurspegli sem best afstöðu þjóðarinnar.

Úr skýrslunni:


Texti: Pétur Halldórsson