Nú í haust hófst fjögurra eininga námskeið í skógmælingum, viðarmælingum, viðarfræðum og viðarnýtingarfræðum á Hvanneyri. Námið er valfag og er sérstaklega stílað á þá sem eru í BS og BS-honour námi á landnýtingabraut á Hvanneyri.
Það er nýlunda að kenna svo viðamikið námskeið sem fjallar eingöngu um þessa þætti skógfræðinnar.
Á námskeiðinu sem heitir " Vöxtur og nýting skóga" verður farið nokkuð ýtarlega í trjá- og skógmælingar. Þ.á .m.  aðferðir við val á mæliúrtaki og helstu tölfræði tengda mismunandi úrtaksaðferðum.
Í síðari hluta námskeiðsins verða mælingaaðferðum á trjábolum og trjáviði gerð skil auk þess sem fjallað verður um útlit, einkenni, efnainnihald og nýtingarmöguleika hráefnisins.
Ekki fer fram hefðbundin tímakennsla á námskeiðinu heldur byggist það á sjálfstæðum lestri námsefnis stutt með vikulegum umræðutímum og mikilli verkefnavinnu. M.a. munu nemendurnir mæla í þaula einn skógarteig í Stálpastaðaskógi í Skorradal og gera grein fyrir viðarforða og viðarvexti. Eingöngu útivinnan við þetta verkefni tekur nemendurna rúma tvo daga. Á myndinni má sjá nemendur á námskeiðinu við mælingar í skógarteignum á Stálpastöðum.
Á námskeiðinu eru 5 nemendur. Þar af fjórir sem eru við nám á Hvanneyri. Umsjónakennarar eru: Arnór Snorrason sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá og Friðrik Aspelund skógræktarkennari á Hvanneyri.  Stundakennarar verða kallaðir til þegar kemur að seinni hluta námskeiðsins.

Arn.Sn.