Grænni skógar  er yfirskrift á öflugu skógræktarnámi á vegum Garðyrkjuskólans, ætlað öllum fróðleiksfúsum skógarbændum á Suðurlandi, sem vilja ná hámarksárangri í skógrækt. Námið samanstendur af 17 námskeiðum þar sem 13 eru skyldunámskeið og a.m.k. 2 valnámskeið. Fyrstu námskeiðin verða kennd haustið 2004 og þau síðustu um vorið 2007. Fyrsti hópur Grænni skóga á Suðurlandi útskrifaðist frá Garðyrkjuskólanum vorið 2004 eftir skemmtilegt nám og hópur skógarbænda á Norðurlandi lýkur náminu 2005. Þá er 26 manna hópur hjá Héraðsskógum og Austurlandsskógum að hefja þetta nám í haust.

 Hvert námskeið er í tvo daga í senn og þá yfirleitt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 10:00 til 17:00 á laugardegi. Reynt verður að koma við verklegri kennslu og vettvangsferðum eins og passar hverju sinni. Flest námskeiðin verða haldin í Garðyrkjuskólanum, önnur víðsvegar um Suðurland. Í upphafi annar verða gefnar út nákvæmar tímasetningar og staðsetningar fyrir hvert námskeið ásamt upplýsingum um leiðbeinendur.Garðyrkjuskólinn sér um framkvæmd námsins en þeir aðilar sem koma að náminu auk skólans eru Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Suðurlandsskógar og Félags skógarbænda á Suðurlandi. Hámarksfjöldi á þessa fyrstu námskeiðaröð er 25 og þeir sem ljúka 80 % af námskeiðunum 12 fá námið metið til eininga hjá Garðyrkjuskólanum.

 Þátttökugjald fyrir námið er kr. 15.000,- á önn (2 annir á ári) en nemendur greiða þátttökugjald í upphafi hverjar annar. Innifalið í þátttökugjaldi er fæði og námskeiðisgögn. Þetta lága námsskeiðsgjald má þakka öflugum stuðningi Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og framlögum stofnana sem koma að náminu. Skráningarfrestur er til 1. september 2004 og fer fram á skrifstofu skólans í síma 480-4300 eða í gegnum netfangið; mhh@reykir.is

 Hámarksfjöldi þátttakenda er 25. Eina leiðin til að tryggja sér öruggt pláss er að skrá sig sem fyrst.