Skógræktarstjóri benti m.a. á það í ávarpi sínu að skógrækt kæmi vel til greina sem ein lausnin á aðsteðjandi vanda sauðfjárræktarinnar í landinu.
Ávarp skógræktarstjóra við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands
Skotland var skóglaust land fyrir tvö hundruð árum og þá var meðalhiti þar litlu hærri en nú er á Íslandi. Á þeim tíma hófu Skotar að rækta stórvaxnar trjátegundir eins og degli og risafuru líkt og Íslendingar eru að fikta við nú. Meginmarkmið skógræktar er þó ekki að rækta fleiri tegundir heldur meiri og betri skóga. Í ávarpi sínu við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstóri að skógrækt gæti verið hluti lausnarinnar á aðsteðjandi vanda sauðfjárræktarinnar. Fundurinn hófst í morgun á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði.
Til að rækta meiri skóga sagði Þröstur að væru tvær leiðir, að gróðursetja og að stuðla að náttúrlegri útbreiðslu skóga. Eins væru tvær leiðir til að rækta betri skóga, að vanda vel til þess efniviðar sem ræktaður væri og að hirða vel um skógana. Þar skipti miklu að grisja snemma svo trén gætu nýtt æskuþróttinn til að gildna.
Þröstur gerði að umtalsefni niðursveiflu í áhuga stjórnvalda á skógrækt. Fluttar væru inn skógarafurðir fyrir milljarða á hverju ári, afurðir sem framleiða mætti með skógrækt innanlands. Skógrækt væri besta leiðin til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu, ekki síst ef ræktað væri á rýru og rofnu landi og notaðar saman aðferðir landgræðslu og skógræktar.
Samt sem áður sagðist skógræktarstjóri bjartsýnn og benti á það til dæmis að mjög góð dæmi væru um það á Héraði að skógrækt hefði komið í stað sauðfjárræktar og skógrækt gæti vel verið hluti af lausn vandans í sauðfjárrækt sem núna blasir við. Loks benti hann á að skógarnir yxu nú vel, afraksturinn af þeim ykist ár frá ári og ýmis annar ávinningur, svo sem útivist, jarðvegsvernd og kolefnisbinding.
Lokaorðin voru svar við spurningunni um hvort nóg væri komið í skógrækt: „Nehei. við erum rétt að byrja!“
Ágæta samkoma.
Ég fór til Skotlands í lok júlí. Þar var skóglaust fyrir hundrað árum síðan, líkt og Ísland, en þar eru nú miklir skógar sem verið er að nytja. Það er ekkert grín að mæta timburflutningabílum á þessum örmjóu sveitavegum þeirra og það vitlausum megin á veginum.
Ég heimsótti tvo gamla lundi, við Blair Atholl og Scone, sem stofnað var til með fyrsta fræinu sem barst frá vestanverðri Norður-Ameríku fyrri partinn á 19. öld. Sumt var safnað af David Douglas sjálfum, þeim er degli er kennt við. Í þessum lundum eru hærri og meiri tré en ég hef annars staðar séð, nema helst í Kaliforníu.
Á milli skosku hálandanna og láglendis Íslands er um fjögurra gráða hitamunur bæði sumar og vetur og frá því snemma á 19. öld hefur hlýnað um ca 3 gráður á báðum stöðunum. Hitafar víða á Íslandi nálgast nú það sem var í Skotlandi þegar gróðursett var til þessara lunda. Og við erum nú að fikta við sömu tegundirnar: degli, risafuru sem við erum farin að kalla mammúttré og þinina með skemtilegu nöfnin: eðalborna þininn nobilis, dásamlega þininn amabilis, stórkostlega þininn grandis og meiriháttar glæsilega þininn magnifica. Eftir 170 ár verða á Íslandi lundir trjáa sem eru 60 metra há og svo sver að 5 fílelfdir karlmenn til samans ná ekki að faðma þau. Maður fyllist bjartsýni!
Það er eitthvað við það að ganga innan um risavaxin tré. Þau einhvern veginn lyfta sálinni upp í svipaðar hæðir og þau eru sjálf. Maður lifir á því í marga mánuði að hafa gengið um í slíkum skógi. Það er mikilvægt að í íslenskri skógrækt verði til skógar vaxnir stórum trjám, en til þess að svo megi verða þurfa trén rými. Það einkennir einmitt íslenska skógrækt hve mikið er af allt of þéttum skógum.
Við viljum rækta meiri og betri skóga
Tvær leiðir eru til þess að rækta meiri skóga. Önnur er sú að gróðursetja, sem er einfalt í framkvæmd og oftast árangursrík leið, en nokkuð dýr á hvern hektara lands.
Hin er að reyna að hafa áhrif á aðra landnotkun til að stuðla að frekari náttúrlegri útbreiðslu skóga. Sú leið er mun erfiðari í framkvæmd og óöruggara er með árangur, en með henni er þó möguleiki á að ná upp skógi á mun stærri landsvæðum. Sá hængur er þó á að skógarnir sem upp vaxa verða aðallega birkikjarr, sem er vissulega margfallt betra en melar og rofnir móar en hefur sínar takmarkanir, t.d. varðandi nytjar og útivistargildi. Sem betur fer eru stafafura, sitkagreni og fleiri tegundir nú farnar að sá sér, þannig að í framtíðinni eigum við von á framleiðslumeiri náttúruskógum.
Einnig eru tvær meginleiðir til að rækta betri skóga. Önnur felst í því að velja réttar tegundir miðað við landgerð og markmið skógræktar, nota bestu kvæmi þeirra og kynbættan efnivið þegar mögulegt er. Um þessi atriði hefur stór hluti skógræktarrannsókna snúist öll þau 50 ár sem Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá hefur verið starfrækt og reyndar mun lengur.
Á aðalfundinum fyrir ári síðan á Djúpavogi voru m.a. fyrirlesarar sem hvöttu til aukinnar fjölbreytni í skógrækt. „Því meiri fjölbreytni, því betra“ var sagt. En það er ekki rétt. Miðað við tiltekin skilyrði og tiltekin markmið er hægt að skilgreina „bestu“ tegundina, þá „næstbestu“, „þriðju bestu“ o.s.frv. Þegar maður er farinn að blanda inn í talsverðu magni af lakari tegundum en þeim bestu dregur það úr árangri í skógræktinni. Bestu timburskógarnir eru úr tegundum sem vaxa hraðast, skemmast minnst og gefa hvað verðmætastar afurðir. Slíkar tegundir eru ekki margar, hvorki á Íslandi né annars staðar í heiminum. Bestu útivistarskógarnir eru vel hirtir framleiðsluskógar, en mun síður ótræðiskjarr. Bestu landgræðsluskógarnir eru með tegundum sem bæði eru duglegar að breiðast út og skapa verðmæti í framtíðinni á áður ónýtu landi.
Hin leiðin til að rækta betri skóga er að hirða vel um þá. Það er að koma betur og betur í ljós hversu mikilvægt er að grisja snemma, að fyrsta grisjun eigi sér stað þegar skógar eru innan við 5 metra háir og þá fari trjáfjöldi niður í um 1.500 tré á hektara. Helsta ástæða þess að grisja svona snemma er að trén sem eftir standa geti notað æskuþróttinn til þvermálsvaxtar. Eftir því sem tré eldast minnka vaxtarviðbrögð þeirra við að fá aukið rými. Með því að fjarlægja skökk og skemmd tré í ungum skógi færist vöxtur skógarins fljótt yfir á færri en betri tré, en síður í eldri skógi. Eftir því sem trén vaxa lengur ógrisjuð eykst líka hættan á verulegu stormfalli í kjölfar grisjunar þegar hún loksins á sér stað. Við þurfum að fara að grisja fyrr og meira en hingað til hefur tíðkast og þetta á við um allar trjategundir. Það kostar auðvitað peninga og úr fyrstu grisjun kemur sjaldnast nægilegt söluvænt efni til að standa undir kostnaði. Þess vegna þurfa opinberir aðilar að styrkja þennan þátt skógræktar ekki síður en gróðursetningu. Skógrækt er meira en bara gróðursetning.
Við upplifum núna þessi árin niðursveiflu í áhuga stjórnvalda á skógrækt. Okkur skógræktarfólki finnst að rökin fyrir því að samfélagið fjárfesti í meiri og betri skógum séu svo augljós að ekki ætti að þurfa að hafa um það mörg orð.
Við flytjum inn skógarafurðir fyrir tugi milljarða króna á ári hverju en gætum framleitt stóran hluta þeirra innanlands, með tilheyrandi verðmætasköpun og öryggi. Skógrækt er fjárfesting.
Við höfum glimrandi dæmi þess að skógræktarverkefni hafi komið í stað sauðfjárræktar á innanverðu Héraði þegar skera þurfti niður vegna riðu. Og nú, 30 árum seinna, er enn blómleg byggð á Héraði. Skógrækt getur klárlega verið hluti af lausn vandans í sauðfjárrækt sem núna blasir við.
Við höfum geysigóð dæmi um land allt þar sem örfoka landi hefur verið breytt í framleiðslumikinn skóg, t.d. hér á Hálsmelum. Það á að vera reglan frekar en undantekningin að nota skóg til að græða upp land og vernda jarðveg.
Loks er aukin skógrækt besta leiðin til að binda kolefni úr andrúmsloftinu og draga þannig úr hnattrænni hlýnun, ekki síst ef ræktað er á rýru og rofnu landi og notaðar saman aðferðir landgræðslu og skógræktar.
Í umræðunni virðast síðan úrtöluraddir um hömlulausa skógrækt, útsýnismissi, fæðuöryggi og hvað það nú er allt saman – engar þeirra vel rökstuddar – lagðar að jöfnu við hin mjög svo góðu rök fyrir aukinni skógrækt og niðurstaðan er að auka ekki við skógrækt. Þarna falla menn í þá gryfju að líta á ágreining sem íþrótt. Í íþróttum eru jöfn lið og allir fylgja sömu reglum en það er síður en svo tilfellið í ágreiningi. Tilfellið er að úrtöluraddir gegn skógrækt komast hvergi nálægt því að vera jafngildar rökunum fyrir skógrækt. Og úr því við búum í lýðræðisríki er rétt að geta þess að margfalt fleira fólk er með aukinni skógrækt en á móti.
Þrátt fyrir yfirstandandi samdrátt horfi ég bjartsýnum augum til framtíðar. Trén vaxa sem aldrei fyrr og framleiðni íslenskra skóga er miklu meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona, bara fyrir tveimur áratugum síðan. Árleg velta af vinnslu og sölu skógarafurða mælist nú í hundruðum milljóna króna þrátt fyrir smæð auðlindarinnar. Annan ágóða af skógum, svo sem vegna útivistar, jarðvegsverndar eða kolefnisbindingar má reikna í milljörðum króna og eykst ár frá ári.
Þá kynnu sumir að spyrja hvort ekki sé nóg komið og svarið er: NEHEI, við erum rétt að byrja!
Nánar um aðalfundinn
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands hófst í morgun á ávörpum og hefðbundnum aðalfundarstörfum. Síðdegis er á dagskránni skoðunarferð um skógræktarsvæði í austanverðri Þingeyjarsveit og á Húsavík og endað verður með samkomu í Fossselsskógi neðst í Bárðardal. Í fyrramálið eru á dagskránni fræðsluerindi, síðdegis skoðunarferð í Fnjóskadal og hátíðarsamkoma á Stórutjörnum um kvöldið. Fundinum lýkur svo á sunnudag með nefndastörfum og afgreiðslu ályktana, kosningu í stjórn og nefndir. Magnús Gunnarsson, sem verið hefur formaður Skógræktarfélags Íslands undanfarin ár, gefur ekki kost á sér til endurkjörs að þessu og því verður nýr formaður kosinn á fundinum. Nánar má fræðast um dagskrá fundarins, lesa ályktunartillögur, ársreikninga og fleira á vef Skógræktarfélags Íslands.