Ísland hefur sent inn nýja útreikninga á útstreymi og bindingu gróðurhúsalofttegunda (GHL) á árunum 1990-2002 til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt þeim jókst heildarútstreymið um 0,2% frá árinu 2001 til 2002. Ef binding kolefnis í gróðri er talin með, minnkaði nettólosun GHL um 0,3% á milli ára. Binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu nam um 163 þúsund tonnum CO2 árið 2002.

Árið 1990 var heildarútstreymi GHL á Íslandi um 3,3 milljónir tonna CO2-ígilda. Árið 2002 var heildarútstreymið orðið 3,6 milljónir tonna og hafði því aukist um 9% á tímabilinu. Sé tekið tillit til bindingar GHL með landgræðslu og skógrækt hefur nettóútstreymi aukist um 4% frá 1990.

Nánar er frá þessu sagt í frétt á vefsíðu Umhverfisráðuneytisins. Hana má nálgast hér.

Það er ljóst að skógrækt leggur verulegan skerf af mörkum til þess að standa við skuldbindingar Íslands til loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í þeim efnum getur hver einasti garðeigandi, sumarbústaðareigandi og landeigandi lagt mikilsvert lóð á vogarskálarnar við að draga úr hraðfara hlýnun andrúmslofts. Kristjana Bergsdóttir, kerfisfræðingur, skógarbóndi og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Reykjavíkur, hefur útbúið vefsíðu þar sem reikna má út losun einstaklinga og heimila á gróðurhúsalofttegundum og kolefnisbindingu með skógrækt. Hana má nálgast hér.

Hljómsveitin Fræbbblarnir hefur einnig birt ?kolefniskvittunarreikni? á vefsíðu sinni, í tengslum við verkefnið ?Kolviður?. Hann má nálgast hér.