Viðarkurl fyrir kísilmálmverksmiðjuna á Bakka er grófskorið og af trjám án barkar. Stafafuruviður á …
Viðarkurl fyrir kísilmálmverksmiðjuna á Bakka er grófskorið og af trjám án barkar. Stafafuruviður á Norðurlandi er mjög efnasnauður og má sennilega nota með berki og þar með lækka vinnslukostnað. Ljósmynd úr verkefnisskýrslunni: Ólafur Ármann Sigurðsson 2020

Allar helstu nytjatrjátegundirnar sem er að finna í ræktuðum skógum á Norðurlandi henta vel í stað innflutts timburs eða kola í kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Stafafura reynist t.d. úrvalshráefni, með eða án barkar, og gæti hentað í viðarkol sem notuð væru í stað alls jarðefnakolefnis í ofnrekstrinum. Til að fullnægja núverandi kurlþörf kísilmálmverksmiðjunnar á Bakka þyrfti að rækta asparskóga á um 35% þess svæðis sem hentar til asparræktunar við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum eftir áformaða stækkun þyrfti að rækta iðnviðarskóg á um 70% alls góðs asparlands á svæðinu. Asparræktun á öllu góðu asparlandi í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum gæti bundið um 9 milljónir tonna af koltvísýringi á 20 árum.

Timburbíll á fullri ferð með norðlenskt grisjunartimbur á leið til kaupanda. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÁ árinu 2020 hófst tveggja ára samstarfsverkefni Skógræktarinnar og PCC BakkiSilicon hf. Verkefnið nefnist Norðlenskur iðnviður fyrir PCC á Bakka. Markmið þess er að kanna möguleika á notkun viðar úr norðlenskum skógum við framleiðslu verksmiðjunnar og meta hvort það er fýsilegt að rækta asparskóga Norðurlandi til að binda kolefni og skila viði fyrir verksmiðjuna á Bakka. Á árinu 2020 styrktu Samtök atvinnuþróunar og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) fyrri áfanga verkefnisins um eina milljón króna og var styrkurinn hluti af áhersluverkefni SSNE 2020.

Fyrri áfangi verkefnisins skiptist í fjóra verkþætti:

  • hráefnisgæði lerkis, stafafuru, rauðgrenis og alaskaaspar fyrir kísiliðnað
  • hve mikinn við má sækja í núverandi skóga?
  • hve mikið land þarf til að mæta hráefnisþörf verksmiðjunnar?
  • hve mikið land er innan marka hagkvæmrar flutningsleiðar til Bakka?

Niðurstöður fyrri áfanga verkefnisins má draga saman í eftirfarandi lykilpunkta:

  • Rannsökuð voru hráefnisgæði viðar með og án barkar af lerki, rauðgreni og stafafuru úr Fnjóskadal og alaskaösp víðs vegar af landinu. Felld voru tíu tré af lerki, tíu tré af stafafuru og tíu af rauðgreni, alls 30 tré. Af alaskaösp voru mæld sýni af 32 trjám. Á rannsóknastofu PCC á Bakka var mælt bundið kolefni, heildarmagn kolefnis, rokgjörn efni, aska og styrkur brennisteins (S), járns (Fe), áls (Al), kalsíns (Ca), títans (Ti), fosfórs (P), króms (Cr), mangans (Mn), kopars (Cu), magnesíns (Mg), natríns (Na) og kalís (K) í viðnum. Einnig var reiknuð uppsöfnun efnanna í kísilmálmi sem gerður væri miðað við núverandi notkun viðarkurls við framleiðsluna.
  • Heildarmagn efna sem skila sér sem óhreinindi í kísilmálmi var í öllum tegundum innan við 0,5% af þurrmassa viðar án barkar sem er lágt í alþjóðlegum samanburði. Hærri gildi mældust í viði af alaskaösp og lerki en rauðgreni og stafafuru og hærri í viði með berki en án barkar. Allar tegundirnar með og án barkar reyndust hæft hráefni fyrir kísilmálmvinnslu miðað við núverandi hlutföll hráefna í framleiðslunni.
  • Stafafura, hvort heldur með eða án barkar, reyndist úrvalshráefni og gæti hentað í viðarkol sem notuð væru í stað alls jarðefnakolefnis í ofnrekstrinum.
  • Nýræktun skógar sem næði því marki myndi kolefnishlutleysa reksturinn áður en skógurinn yrði nýttur og með sjálfbærri skógrækt yrði hálfur kolefnisforðinn sem safnaðist upp við ræktunina varanlega bundinn á landinu.
  • Innan 250 km flutningsleiðar til Bakka við Húsavík eru um 12.000 hektarar af ræktuðum skógi sem getur gefið grisjunarafla á næstu áratugum. Meginhluti skóganna var gróðursettur eftir 1990 og um 60% af skóginum eru lerki.
  • Án þess að skerða framleiðni skóganna er næstu árin er mögulegt að sækja árlega tæplega 8.000 m3 í skógana en viðaraflinn vex í um 36.000 m3 um miðja öldina. Hve mikið verður hægt að grisja eftir þann tíma fer eftir því hve mikið verður gróðursett næstu áratugi.
  • Við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum eru um 22.400 ha af hentugu landi til asparræktunar. Vegin meðalflutningsvegalengd af hentugu asparlandi á svæðinu og til Bakka er um 90 km. Helmingur ræktunarlandsins er innan 75 km fjarlægðar (11.700 ha, 52%) og mestallt innan 100 km fjarlægðar (19.600 ha, 86%).
  • Frá 20-25 ára aldri gætu 22.400 ha af góðu asparlandi gefið um 224.000 rúmmetra af bolviði árlega eða 128.000 tonn af viðarkurli á ári fyrir kísiliðnað á Bakka. Til að fullnægja núverandi kurlþörf kísilmálmverksmiðjunnar á Bakka þyrfti að rækta asparskóga á um 35% þess svæðis sem hentar til asparræktunar við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum. Til að fullnægja allri kurlþörf verksmiðjunnar eftir áformaða stækkun þyrfti að rækta iðnviðarskóg á um 70% alls góðs asparlands á svæðinu.
  • Asparræktun á öllu góðu asparlandi í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum gæti bundið um 9 milljónir tonna af CO2 á 20 árum (árleg koltvísýringsbinding um 400.000 tonn CO2).

 

Tímabil A-Húnavatns-
sýsla
Skaga-
fjörður
Eyja-
fjörður
Þingeyjar-
sýslur
Fljótsdals-
hérað
Samtals Vegalengd
(vegin)
Ártal m3 ár-1 m3 ár-1 m3 ár-1 m3 ár-1 m3 ár-1 m3 ár-1 Km
2021-2030 100 200 2.000 1.500 4.000 7.800 157
2031-2040 1.000 2.000 4.000 4.000 11.000 22.000 167
2041-2050 2.000 4.000 5.000 8.000 17.000 36.000 166

Á þessari töflu úr skýrslu verkefnisins má sjá hversu mikils iðnviðar er áætlað að afla megi á viðaraflasvæði PCC á árabilinu 2021-2050.

 Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, vann stærstan hluta verkefnisins og skrifaði skýrslu sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan. Auk hans komu að verkefninu Brynjar Skúlason, Rúnar Ísleifsson og Björn Traustason fyrir hönd Skógræktarinnar. Aðalþátttakendur fyrir PCC BakkiSilicon hf. voru þeir Ólafur Ármann Sigurðsson umhverfisstjóri og Dr. Gunnar B. Ólason, sérfræðingur rannsóknastofu. Elma Sif Einarsdóttir tók þátt í undirbúningi verkefnisins fyrir hönd fyrirtækisins.

Texti: Brynjar Skúlason
Vinnsla: Pétur Halldórsson