Síðastliðin fimmtudag voru starfsmenn Héraðs- og Austurlandsskóga viðstaddir þegar ný sameiginleg skrifstofuaðstaða Norðurlandsskóga og Skógræktarinnar var formlega tekin í notkun. Nýtt húsnæði þeirra norðanmanna er í Gömlu gróðrarstöðinni sem er nær 100 ára gamalt hús í innbæ Akureyrar.

Gamla gróðrarstöðin er sögufrægt hús og ekki síður garðurinn sem er í brekkunni ofan við húsið.

Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar segir eftirfarandi um sögu gömlu gróðrarstöðvarinnar:
Ræktunarfélag Norðurlands sem var stofnað 1903 fékk sama ár að gjöf 25 dagsláttur (8 ha) frá Akureyrarkaupstað. Trjárækt var strax hafin neðan við brekkuna og í Naustagili. Árið 1906 var reist íbúðarhús fyrir tilraunastjórann sem síðar var mikið endurbætt. Húsið og hinn mikli trjágarður umhverfis það hefur síðan verið nefnd Gróðrarstöðin. Þar fóru lengi fram merkar tilraunir í landbúnaði, fyrst á vegum Ræktunarfélagsins en frá 1947 á vegum ríkisins uns starfsemin var flutt 1974 að Möðruvöllum í Hörgárdal. Framan af önnuðust framkvæmdastjórar Ræktunarfélagsins trjáræktina í Gróðrarstöðinni, en á árunum 1915-1923 annaðist Guðrún Þ.
Björnsdóttir garðinn og Jóna M. Jónsdóttir frá Sökku í Svarfaðardal á árunum 1924-1946, að tveimur árum undanskildum er Svava Skaptadóttir gengdi starfinu. Það var mikið lán að þessar konur sinntu gróðrinum af natni, þannig að Gróðrarstöðin varð víðfræg fyiri fegurð og grósku. Þær skrifuðu merkar skýrslur um vöxt og þrif trjánna á hverju ári í Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands og gerðu einnig árlegar mælingar á trjávexti.
Í brekkunni sunnan við Naustagilið lét Sigurður Sigurðsson gróðursetja ýmsar tegundir af trjáplöntum á árunum 1908-1909. ?Tilgangurinn var að fá úr því skorið, hvort trjáplöntur gætu vaxið og dafnað sæmilega í óvöldu landi án nokkurrar umhirðu, fyrr en að því kæmi að þyrfti að grisja? skrifar Ármann Dalmannsson 1955. Sigurður Blöndal Fyrrverandi skógræktarstjóri skrifar
1990: ? Þessi skógarteigur (sem óx upp af gróðursetningunni 1908-1909) er einn hinn merkasti á Íslandi frá skógræktarsögulegu sjónarmiði?