Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir taka þátt í norrænu samstarfi kvenna í skógrækt. Hér eru þær í heimsókn í viðarvinnslu fyrirtækisins Norske Skog Saugsbrug. Mynd: ESO
Skilaboðin frá nýafstöðnu landsþingi norskra skógarkvenna
Skógrækt og skógarnytjar leika mikilvægt hlutverk í því að gera norska hagkerfið grænt. Til þess þarf metnaðarfulla skógareigendur og hagnýta menntun í skógarnytjum. Þetta er meðal þess sem rætt var á nýafstöðnu landsþingi norskra kvenna í skógrækt sem fram fór í Halden á Austfold.
Samtök kvenna í skógrækt á Austfold, Ósló og Akershus buðu tveimur konum frá Íslandi að sitja landsþingið, þeim Eddu Sigurdísi Oddsdóttur, jarðvegsvistfræðingi á Mógilsá, og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, sviðstjóra skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar. Styrkur til ferðarinnar fékkst úr Norsku þjóðargjöfinni. Á landsþinginu koma saman konur allt frá skógareigendum og starfsfólki í skógrækt og skógariðnaði upp í vísindafólk og útivistarfólk. Þannig hafa konurnar hag af ólíkum bakgrunni hver annarrar. Til dæmis búa ekki allir skógareigendur að menntun í skógfræðum en fá þarna tækifæri til að læra af öðrum.
Að sögn Eddu var þetta afskaplega fróðleg og skemmtileg ferð. Skoðuð hafi verið starfsemi fyrirtækisins Borregaard sem rekur eina háþróuðustu lífmassavinnslu í heimi í Sarpsborg. Þar eru framleidd ýmiss konar lífefni sem leyst geta af hólmi efni unnin úr jarðolíu. Edda segir það hafa verið mjög áhugavert að sjá hversu mikið sé hægt að vinna úr timbrinu annað en spýtur og pappír. Í ferðinni hafi einnig verið heimsótt hefðbundnari pappírsvinnsla Norske Skog í Halden, einn stærsti framleiðandi tímaritapappírs í heiminum. Bæði þessi fyrirtæki hafa starfað frá því á nítjándu öld og verið mikilvægir timburkaupendur fyrir norska skógrækt í meira en öld.
Á landsþinginu var menntun á skógarsviðinu mikið til umræðu og eining um að viðhalda yrði námi á borð við það sem er í boði í framhaldsskólanum Sønsterud á Heiðmörk og að verkefnið Velg Skog yrði framlengt. Í því verkefni er unnið að því að kynna ungmennum skógartengt nám og hvetja það til að hasla sér völl á skógarsviðinu. Þetta þykir hafa borið góðan árangur enda hefur nemendum í skógartengdu námi fjölgað á ný í Noregi að undanförnu.
Nadja Stumberg, formaður samtaka kvenna í skógrækt á Austfold, Ósló og Akershus, býður þátttakendur velkomna á landsþingið. Mynd: Kvinner i skogbruket
Stórþingið í Noregi hefur sett sér að Noregur dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fram til ársins 2030. Aukin notkun timburs er hluti af lausninni við loftslagsvandanum. Í fréttatilkynningu sem send var út að loknu landsþinginu í Halden er bent á að í þessum efnum þurfi sveitarfélögin að fara fyrir með góðu fordæmi og axla sína ábyrgð á þessu stóra verkefni. Athuganir hafi því miður sýnt að fá sveitarfélög hafi enn sem komið er sett sér að ná þessum markmiðum stjórnvalda, lítil vitund sé um loftslagsmálin hjá sveitarfélögunum og um aukna notkun timburs sem byggingarefnis.