Hér sést hvar verið er að græða sprota af völdum fjallaþin á grunnstofn til fræræktar á Vöglum í Fnj…
Hér sést hvar verið er að græða sprota af völdum fjallaþin á grunnstofn til fræræktar á Vöglum í Fnjóskadal. Með ágræðslunni er vonast til að framleiða megi jólatré sem bæði hafa eftirsóknarvert vaxtarlag og mótstöðu gegn frostskemmdum og óværu. Mynd: Pétur Halldórsson

Sagt frá doktorsverkefni Brynjars Skúlasonar á vef NordGen

Rannsóknir á frostþoli fjallaþins og mót­stöðu tegundarinnar gegn skaðvöldum í loftslagi Íslands og Danmerkur eru undir­staðan í doktorsverkefni Brynjars Skúla­sonar skógfræðings við Kaup­manna­hafnar­­háskóla. Sagt er frá verk­efninu í frétt á vef norrænu erfða­vísinda­stofnunarinnar NordGen.

Meginmarkmiðið með rannsóknum Brynjars er að finna efnivið af fjallaþin til ræktunar jólatrjáa á Íslandi. Í því skyni safnar hann allri tiltækri vitneskju um muninn á einstökum kvæmum fjallaþins (Abies lasiocarpa) og því sem vitað er um afföll, vöxt, vaxtarlag, vaxtarhraða og aðra eiginleika, viðnámsþrótt gegn lúsum og sveppasjúkdómum ásamt upplýsingum um gæði trjánna sem jólatrjáa þegar þau hafa verið höggvin. Sömuleiðis kannar hann hvernig allir þessir ólíku þættir og samspil þeirra getur ráðið því hversu gott jólatré fæst við ræktunina.

Val á efniviði

Niðurstöður doktorsrannsóknarinnar verða byggðar á öllum þeim mælingum sem gerðar hafa verið í þremur vettvangstilraunum í Danmörku og einni á Íslandi.

Þess er vænst að niðurstöðurnar gefi færi á að velja af skynsemi þann efnivið sem nota mætti til að setja upp frægarð þar sem framleitt yrði fræ til jólatrjáaframleiðslu með fjallaþini bæði í Danmörku og á Íslandi. Sprotar af úrvalstrjám eru græddir á grunnstofna og þess er vænst að hinn kynbætti efniviður sem út úr því kemur laði fram þá eiginleika sem sóst er eftir í jólatrjám og hafi um leið aukinn viðnámsþrótt gegn bæði skordýrum, sveppasjúkdómum og frosti.

Bláa afbrigðið af fjallaþini (Abies lasiocarpa var. arizonica) Mynd: Brynjar Skúlason.">

Norræn rannsóknarsamvinna

Snemmsumars 1999 voru 27 mis­mun­andi kvæmi af fjallaþin sett út í tilraun á þremur stöðum í Danmörku og einnig á jafnmörgum stöðum í Noregi og á Ís­landi. Tilraunirnar voru hluti af norrænu samstarfsverkefni. Valin voru kvæmi frá náttúrlegum vaxtarsvæðum fjallaþins í Norður-Ameríku sem ná allt frá Júkon á 61. gráðu norður suður til Arisóna á 34. gráðu. Allar tilraunirnar þrjár voru mæld­ar eftir þrjú vaxtartímabil haustið 2002. Vöxtur var mældur og metin bæði lifun og vaxtarlag með tilliti til jólatrjáaræktar. Niðurstöðurnar birtust í 19. hefti tíma­ritsins Scandinavian Journal of Forest Research árið 2004.

En jafnvel þótt ýmsar upplýsingar fengj­ust með tilraunaniðurstöðum þessara þriggja ára nægðu þær ekki til að meta hvernig uppskeru mætti vænta í jólatrjáa­rækt með fjallaþin eða hvaða munur yrði á milli kvæma. Þess vegna var haldið áfram að mæla tilraunirnar á Íslandi, meta lifun og vaxtarlag og mæla vöxt. Þetta var gert bæði 2006 og 2011.


Prófanir með skaðvalda mikilvægar til flokkunar

Röðun kvæmanna eftir mælingarnar 2006 og 2011 breyttist lítið sem ekkert frá mælingunum 2002. Engin merki sáust um sveppasýkingu eða skemmdir af völdum skjaldlúsa (Balsam woolly aphid). Dönsku tilraunirnar voru einn­ig  teknar út að nýju 2007, 2008 og 2011. Meginniðurstöður þeirra mælinga hafa birst í nokkrum vísindaritum. Auk þess að mæla vöxt trjánna og meta eiginleika þeirra sem jólatrjáa var einnig litið eftir sveppaskemmdum og lúsabiti. Þessir skaðvldar hafa augljóslega haft áhrif á hvernig kvæmin raðast upp í gæðaröð sem jólatré frá mælingunum 2007.


Þetta gerir að verkum að þær upplýsingar sem fengist hafa um danska efni­viðinn gefa færi á að meta aðlögunarhæfni mismunandi kvæma fjalla­þins með tilliti til loftslags, skordýrabeitar og sveppasjúkdóma ásamt samverkandi þáttum þarna á milli. Auk þess sem áður hefur verið getið hefur Brynjar einnig safnað sprotum af kvæmunum 27 úr öllum tilraun­un­um til þess að meta gæði kvæmanna eftir að tré hafa verið skorin upp.

Frostþolspróf og vaxtartaktur

Í tilraununum sem settar voru út á Íslandi var safnað sprotum til frostþols­prófana. Sprotunum var safnað bæði að vori og hausti, þeir frystir við mis­munandi mikið frost og þannig leitast við að fá betri skilning á vaxtar­takti hjá bæði einstökum trjám og kvæmum í heild. Vaxtartakturinn segir ekki aðeins til um lengd vaxtartíma á sumri heldur einnig hvenær tréð byrjar að vaxa að vori og hvenær það gengur frá sér að hausti.  Mikilvægt er að kunna góð skil á þessum vaxtartakti til að varpa megi betra ljósi á hvaða orsakir eða samverkandi þættir gætu tengst auknum afföllum, skemmd­um á trjám, lélegum vexti og öðrum þeim vaxtartengdu þáttum sem sést hafa í vettvangstilraununum.

Heimild: NordGen
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson