Forsíða skýrs SNS um varnir gegn skógar- og gróðureldum
Norrænt samstarfsnet um skógar- og gróðurelda hefur gefið út skýrslu þar sem safnað hefur verið saman ýmissi þekkingu sem ætlað er að auðvelda og flýta fyrir samstarfi og fræðslustarfi um skógarumhirðu og eldvarnir á tímum loftslagsbreytinga. Mikilvægt er talið að efla sameiginlega þekkingu og aðferðir til varnar gróðureldum, gefa út samræmdar leiðbeiningar og efla samtal um þessi efni milli landanna.
Með breyttu loftslagi er enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr að huga vel að eldvörnum í gróðurlendi. Á vegum SNS sem er norrænt samstarf um skógrannsóknir er nú unnið að því að byggja upp þekkingargrunn um ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir sem beita má til að laga skóga að þessu breytta umhverfi og draga úr hættunni á skógareldum. Samstarfið um varnir gegn skógar- og gróðureldum nefnist á sænsku Nordiska nätverket för skogs- och vegetationsbrand. Frá því er sagt í nýútkomnu fréttabréfi SNS.
Loftslagið er að breytast á Norðurlöndunum eins og annars staðar og það getur leitt til aukinnar hættu á gróðureldum. Meðalhiti hækkar og æ oftar verða mikil hlýindi með þurrkatíð. Þar með aukast líkur á stærri og tíðari gróðureldum, meðal annars skógareldum.
Loftslag er mjög mismunandi eftir því hvar borið er niður á Norðurlöndunum og það sama má segja um skóglendið. Hins vegar eru ýmis svæði lík frá einu landi til annars og þess vegna getur verið mjög mikið gagn að því að löndin vinni saman og safni sameiginlega gögnum og þekkingu á því sem snertir aukna eldhættu. Skýrslan sem norrænt samstarfsnet um skógar- og gróðurelda hefur nú sent frá sér er mikilvægt innlegg í þetta samstarf. Þar hefur verið safnað saman upplýsingum um hvernig liðka má fyrir fræðslu og samstarfi um bætta skógarumhirðu til að stuðla að eldvörnum í skóglendi með hlýnandi loftslagi.
Skógarumhirða eða skógstjórn er aðalatriði í eldvörnum á skógarsvæðum. Vandaðar aðferðir við umhirðu skóga felast meðal annars í því að auka fjölbreytni á skógræktarsvæðum, sjá til þess að eldfimt efni liggi ekki í samfelldum breiðum á skógarbotni og að auðvelt sé að komast að viðkvæmum svæðum. Allt þetta dregur úr hættunni á að upp komi eldar sem ekki verður ráðið við. Hitt er annað mál að slíkar aðgerðir geta stangast á við markmið um líffjölbreytni, vernd, framleiðni, brunaöryggi, kolefnisbindingu og aðgengi almennings að skógum.
Tillögur um sameiginlegar norrænar aðgerðir
Skógarumhirða til eldvarna með tilliti til ólíkra sjónarmiða
- Skapa þekkingu og deila aðferðum sem tengjast því að
1) leggja net skógarvega
2) grisja skóga rétt
3) fjarlægja eldfimt efni (sérstaklega á mörkum skipulagðra svæða og villtrar náttúru)
4) að sjá til þess að eldfimt efni liggi ekki í samfelldum breiðum og koma upp malarslóðum eða gróðurlausum beltum í skóginum
5) skipuleggja betur gerð og samsetningu skóga með tilliti til þess að loftslag breytist og verður óútreiknanlegra
6) skipta upp skógarreitum og skipuleggja skógarsvæði með reitum á mismunandi aldri
7) brenna gróður/gróðurleifar með stýrðum hætti
- Útbúa sameiginlegar leiðbeiningar um sjálfbærni og eldþol fyrir norræna skóga.
- Að liðka fyrir samtali milli landanna um málefni sem rekast á (svo sem líffjölbreytni, framleiðni, eldvarnir og kolefnisbindingu).
Samtal milli landa og samræming hugtaka og aðferða
- Straumlínulaga samskipti milli Norðurlandanna.
- Þróa og móta sameiginleg hugtök og ferla.
- Stilla saman aðferðir við gagnasöfnun til að stuðla að árangursríkum norrænum rannsóknarverkefnum og fræðslu á Norðurlöndunum.
Þróa lagarammann
- Þróa þekkingu og stefnumótun við gerð löggjafar um eldvarnir og skógarumhirðu. Til dæmis hefur sænska almannavarnastofnunin MSB lýst nauðsyn þess að setja reglur um leyfilegt bil milli bygginga og skóga eða eldfims gróðurs/gróðurleifa.
Dreifa upplýsingum og vekja fólk til vitundar
- Útbúa og dreifa upplýsingaefni með ólíkum leiðum (öpp, myndbönd, skilti, bæklingar o.s.frv.) til að upplýsa almenning og fólk í skógargeiranum um hlutverk og skyldur hvers og eins í eldvörnum.
Snör viðbrögð með fullnægjandi upplýsingum, eftirliti og fjölþættu samstarfi
- Miðla þekkingu til að þjálfa upp vel upplýst starfsfólk í skógrækt svo draga megi úr eldhættu og bregðast rétt við ef upp koma eldar.
- Rannsaka og miðla þekkingu um hvort fá megi skógar- og landeigendum hlutverk og ábyrgð við eftirlit og slökkvistarf til að auka líkurnar á góðum árangri slökkviliða.