Jón Loftsson skógræktarstjóri kynnir nokkra af starfsmönnum Skógræktar ríkisins á Norðurlandi fyrir gestunum.
Hrifust af fagmennsku og sóknarhug íslensks skógræktarfólks
Skógræktarfólk frá fylkinu Mæri og Raumsdal í Noregi var á ferð um Ísland í síðustu viku og naut fylgdar Jóns Loftssonar skógræktarstjóra. Ferðin var farin að tilstuðlan Møre og Romsdal Forstmannslag sem er fagfélag skógarfólks í fylkinu. Hópurinn hreifst mjög af fagmennsku íslensks skógræktarfólks og þeim sóknarhug sem það byggi yfir.
Ferðalagið um Ísland hófst á Héraði. Hópurinn gisti tvær nætur á Hallormsstað og fékk að hitta Þór Þorfinnsson skógarvörð og starfsfólk hans í starfstöð Skógræktar ríkisins þar. Farið var í skoðunarferðir um Hallormsstaðaskóg og nágrenni, trjásafnið skoðað og fleira. Í hópnum voru tveir skógræktarmenn sem höfðu komið í skiptiferð til Íslands árið 1970 og tekið þátt í gróðursetningum á Hallormsstað, Harald Nymoen og Olaf Stuenes. Þeir sögðust mjög hrifnir af því hversu vel trén hefðu þrifist á þessum 45 árum sem síðan eru liðin og hversu mikið skóglendi hérlendis hefði aukist. Komið var við í Snæfellsstofu Vatnajökulsþjóðgarðs og á Droplaugarstöðum þar sem Lárus Heiðarsson, skógarbóndi og skógræktarráðunautur, sýndi hópnum skógrækt sína.
Því næst var haldið norður í land, komið við hjá Dettifossi og í Mývatnssveit en í Vaglaskógi tóku starfsmenn Skógræktar ríkisins á Norðurlandi á móti hópnum. Fræddust gestirnir um fræframleiðsluna á Vöglum og kynbótastarf til fræframleiðslu, bæði á lerki og fjallaþin. Rúnar Ísleifsson skógarvörður kynnti starfsemina á Norðurlandi, Hallgrímur Indriðason sagði frá skipulagsmálum og fleiru en Brynjar Skúlason kynnti kynbótastarf sitt á fjallaþin.
Á suðurleiðinni var komið við á Síldarminjasafninu á Siglufirði og Hólum í Hjaltadal þar sem Auðunarstofa var skoðuð, tilgátuhúsið sem reist var úr gjafaviði frá Noregi líkt og Auðunarstofa hin gamla sem stóð á Hólum í 500 ár. Í Reykholti í Borgarfirði var komið í Snorrastofu í Reykholti og Landnámssetrinu í Borgarnesi. Síðasta daginn tóku starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, á móti hópnum og kynntu starfsemina. Norsku gestirnir töluðu mikið um hversu faglegt allt skógræktarstarf væri hérlendis og dáðust að eldmóðnum sem þeir skynjuðu hjá íslensku skógræktarfólki.
Møre og Romsdal Forstmannslag er skógarmannafélag í fylkinu Mæri og Raumsdal sem stofnað var fyrir fáeinum árum upp úr nokkrum eldri fagfélögum á sviði skógfræði, skógtækni og landbúnaðar. Í félaginu eru starfsmenn bæði opinberra skógræktarstofnana og einkafyrirtækja í skógrækt og skógariðnaði en einnig eftirlaunaþegar sem vilja halda tengslum við fagið og samstarfsfólk sitt. Félagið starfar eftir eigin lögum og félagsmenn kjósa því stjórn. Tekjur hefur það af árgjöldum félagsmanna en einnig er sótt um styrki úr skógarsjóðum fyrir starfseminni.
Tilgangur félagsins er ekki síst að vera vettvangur fyrir einstaklinga í skógargeiranum til að hitta samherja sína í faginu því margir starfa í litlum hópum eða jafnvel einir síns liðs. Þannig er félagið sameiginlegur vettvangur að hittast fyrir alla sem starfa að skógrækt og skógarnytjum vítt og breitt um fylkið. Markmið skógarmannafélags Mæris og Raumsdals er með öðrum orðum að efla samstöðu og viðhalda tengslum fagfólks í skógrækt innan fylkisins.
Félagið tekur virkan þátt í skipulagningu ýmissa viðburða á fagsviðinu og annað hvert ár skipuleggur það ferðalög fyrir félagsmenn sína. Þá er til skiptis farið í heimsóknir til skógarfólks í fylkinu eða í útlöndum. Annað hvert ár er líka skipulögð kynnisferð. Af sjálfu leiðir að félagsmenn sjá líka um að taka á móti gestum sem koma til þeirra í sömu erindum. Í utanlandsferðunum býður félagið ávallt með fulltrúum frá skógræktarfélagi Mæris og Raumsdals, Skogselskapet i Møre og Romsdal. Tveir skógareigendur úr því félagi voru í hópnum sem kom til Íslands að þessu sinni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar fimmtudaginn 4. júní þegar félagar í Møre og Romsdal Forstmannslag stöldruðu við í Vaglaskógi.
Leiðtogi hópsins, skógfræðingurinn Harald Nymoen, færði heimamönnum
haganlega gerða gripi úr norskum viði.
Olav Stuenes (lengst til hægri) hafði á
orði að íslensku skógarnir hefðu stækkað
og dafnað frá því að hann kom fyrir 45 árum. Norðmennirnir voru spenntir fyrir hákarlinum
en þó svolítið hikandi.