<em>Nýja skemman tilbúin í janúar 2015.</em>
Nýja skemman tilbúin í janúar 2015.

Bætir mjög aðstöðu til skógarumhirðu og vinnslu skógarafurða

Í janúar lauk framkvæmdum við nýja skemmu á starfstöð Skógræktar ríkisins á Skriðufelli í Þjórsárdal. Skemman leysir af hólmi lélega skúra sem áður hýstu smærri vélar og annan búnað og nú má vinna ýmis verk innan dyra sem áður varð að vinna úti. Stærri vélar komast líka inn í skemmuna til viðhalds og viðgerða. Skemman gjörbreytir þannig aðstöðu starfsfólks í Þjórsárdal og gefur betri möguleika til að vinna verðmæti úr afurðum skógarins.

Skemman er stálgrindarhús á steyptum grunni með einangruðum veggja- og lofteiningum. Í henni er hitaveita og hitinn í gólfinu. Að grunnfleti er skemman um 225 fermetrar og rúmmálið nálægt þúsund rúmmetrum. Lengdin er 17,9 metrar og breiddin 12,5 metrar. Tvennar innkeyrsludyr eru á byggingunni, að sunnan og vestan, hvor um sig fjórir metrar á breidd og 4,2 m á hæð.

Jóhannes Sigurðsson aðstoðarskógarvörður raðar í hillurnar í nýju skemmunni.">

Ekki tók langan tíma að koma byggingunni upp frá því að grunnur var tilbúinn með steyptri plötu og þar til húsið var fullbúið að utan. Það verk var unnið á um hálfum mánuði enda fljótlegt að raða saman veggja- og þakeiningunum þegar grindin var komin upp. Grunnurinn var tekinn í september og húsið stóð fullbúið í janúar. Byggingartíminn í heild var því um fjórir mánuðir.

Jóhannes H. Sigurðsson aðstoðarskógarvörður stýrir starfseminni í Þjórsárdal. Hann segir að nýja skemman breyti mjög miklu fyrir starfsemi Skógræktar ríkisins á Skriðufelli. Það hafi ekki síst komið berlega í ljós undanfarnar vikur því óvenjumikið vetrarríki hefur verið í Þjórsárdal frá því snemma í desember. Þegar unnið er með timbur úr skógi sé tafsamt að þurfa að byrja hvern dag á því að þíða upp vélar og hreinsa snjó af bæði tækjum og efniviði. Þegar skogur.is var á ferð í Þjórsárdalnum fyrir skömmu stóðu grindur í skemmunni með eldiviði. Með tilkomu skemmunnar er nú meðal annars hægt að pakka eldiviðnum í skjóli fyrir veðri og vindum og jafnvel þurrka hann að einhverju leyti.

Ákveðið hefur verið að reisa sams konar skemmu á starfstöðvum Skógræktar ríkisins í Hvammi í Skorradal og í Haukadal. Þessa dagana er unnið að því að skipuleggja lóð undir skemmuna í Skorradal og afla leyfa til framkvæmdarinnar en þess er vænst að báðar þessar skemmur rísi innan tíðar, jafnvel áður en árið er úti. Mikil vinna er fram undan við grisjun og umhirðu skóganna og til dæmis eru skógarnir í Skorradal farnir að gefa mikið af sér af timbri, sérstaklega af iðnviði úr grisjunum. Með auknum umsvifum af þeim toga eykst þörfin fyrir viðunandi húsakost.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá mismunandi áföngum í byggingarsögu skemmunnar í Þjórsárdal.

Lóð skemmunnar áður en framkvæmdir hófust í september 2014.">


Verið að slá upp fyrir sökklinum.">

Hér hefur sökkullinn verið steyptur og hægt að fara að fylla með grús.">

Platan undirbúin.">

Veggjaeiningarnar komnar á grindina.">


Skemman tilbúin og Jóhannes að koma birgðum og búnaði fyrir.
Í baksýn dráttarvél og grindur með eldiviði í þurrkun.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
Myndir frá framkvæmdatímanum: Hreinn Óskarsson