Ýmis óvænt fyrirbæri skjóta upp kollinum þá síst varir í skógum landsins. Í lok langrar vætutíðar í síðustu viku rakst skógarvörðurinn á Suðurlandi á þennan skrautlega svepp sem er ekki allur þar sem hann er séður. Að sögn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetri, er um að ræða hlaupsveppinn Gullskjálfanda (Lat. Tremella mesenterica Retz.: Fr. ). Eins og sést á meðfylgjandi myndum þá vex sveppurinn út úr gamalli fúinni aspargrein og því myndu flestir gera ráð fyrir að hér sé um að ræða fúasvepp. Guðríður Gyða upplýsir þó að málið er ekki svo einfalt því hér er á ferðinni sveppur sem sníkir á öðrum sveppum, tegundum af ættkvíslinni Peniophora, rauðskæni (skv. dönsku sveppabókinni eftir Jan Vesterholt 2004) sem eru fúasveppir á laufviði þannig að þarna situr hlaupsveppur á skinnsveppi sem situr á fúnandi ösp. Er þetta gott dæmi um þá líffræðilegu fjölbreytni sem felst í digrum, fúnandi viði.

 

Að sögn Gyðu er þetta í fyrsta sinn sem Gullskjálfandinn finnst á Tumastöðum, en hún fann sveppinn á Mógilsá síðastliðið haust. Er sveppurinn líklega breiðast út um landið.