Forsíða bæklingsins
Forsíða bæklingsins

Bæklingurinn Fræðsluefni um skógrækt er nú kominn út í nýrri og endurbættri útgáfu. Hann er einkum miðaður við skógarbændur sem eru að stíga sín fyrstu skref í skógrækt.

Þetta er þriðja útgáfa bæklings með þessu heiti, Fræðsluefni um skógrækt en önnur útgáfa kom út á vegum Landshlutaverkefna í skógrækt árið 2014. Í bæklingnum er að finna helstu atriði sem fólk þarf að þekkja áður en hafist er handa við skógrækt. Að mörgu er að hyggja þegar lagt er upp í slíka ferð og um skógrækt á máltækið góða vel við, að í upphafi skyldi endinn skoða. Fyrstu skrefin ákvarða nefnilega hvað skógurinn gefur í framtíðinni, bæði hvað varðar afurðir og útlit.

Í stuttum bæklingi gefst ekki tækifæri til að kafa djúpt í málin heldur aðeins tæpa á því helsta. Fjallað er um skógræktaráætlanir, helstu trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi, undirbúning lands og meðferð skógarplantna. Þá er allítarlegur kafli um gróðursetningu og einnig er fjallað um áburð áburðargjöf og um plöntugæði.

Nýir skógarbændur eru jafnframt hvattir til þess að sækja þau námskeið sem í boði eru og kynna sér ítarlegra lesefni sem fáanlegt er hjá
Skógræktinni og á vefnum skogur.is en einnig hjá Landssamtökum skógareigenda (LSE) og á vef samtakanna, skogarbondi.is.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, ritstýrði þriðju útgáfu bæklingsins og tók þátt í endurskoðun hans frá annarri útgáfu ásamt Arnlín Óladóttur, Halli Björgvinssyni, Hraundísi Guðmundsdóttur, Jóni Þór Birgissyni og Valgerði Jónsdóttur. Fleiri gáfu líka góðar ábendingar, svo sem Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu Skógræktarinnar,  og Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSE, sem jafnframt teiknaði flestar skýringarmyndanna í ritinu. Um textavinnslu og umbrot sá Pétur Halldórsson

Hér eru hlekkir á nýja bæklinginn og fleiri fræðslubæklinga Skógræktarinnar:

Texti: Pétur Halldórsson