Lerkiplöntur í gróðurhúsi sem bíða þess að verða fluttar út. Ljósmynd: Rakel J. Jónsdóttir
Íslensk rannsókn sem fjallað er um í nýrri grein í vísindaritinu Scandinavian Journal of Forest Research, sýnir að frostskemmdir á rótum rússalerkiplantna leiða ekki einungis til affalla á fyrsta vaxtarsumri eftir gróðursetningu heldur voru afföllin enn í gangi eftir tvö vaxtarskeið. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að gæði skógarplantna séu tryggð fyrir gróðursetningu.
Aðalhöfundur greinarinnar er Rakel J. Jónsdóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Greinin er á ensku og ber titilinn Root frost tolerance, seasonal variation in root growth, and field performance of one-year-old Russian larch seedlings with simulated root freezing damages. Meðhöfundur með Rakel er Inger Sundheim Fløistad, sérfræðingur í skógarplöntuframleiðslu við NIBIO í Noregi.
Í greininni er fjallað um rótarfrostþol ungra rússalerkiplantna í framleiðslu yfir vetrartímann og afleiðingar þess að gróðursetja plöntur með kalið rótarkerfi. Í gróðrarstöðvum er rússalerki oft sáð tvisvar yfir sumarið en þá þarf að flytja seinni sáninguna út úr gróðurhúsum í janúar, þegar veturinn er hvað harðastur, svo rýma megi gróðurhúsin fyrir nýrri framleiðslu. Þekkt er að rætur mynda almennt minna frostþol en yfirvöxtur ungra skógarplantna og er því hætt við kali ef þær verða útsettar fyrir miklum kulda. Þessi umskipti í vetrargeymslu eru því áhættuþáttur í framleiðsluferlinu. Til að sem bestur árangur náist í gróðursetningum skógarplantna er nauðsynlegt að tryggja eins og best verður á kosið heilbrigði þeirra við gróðursetningu og þar með möguleika þeirra á að lifa af og vaxa upp. Mikilvægt er því að meta gæði plantnanna fyrir gróðursetningu.
Í rannsókninni voru áhrif rótarskemmda á ungum lerkiplöntum af völdum stýrðrar frystingar könnuð með svokallaðri RGC-aðferð, sem notuð er til að meta vaxtargetu róta auk þess sem fylgst var með vexti skemmdra og óskemmdra plantna yfir tvö vaxtarsumur.
Fjórar meðferðir voru notaðar til þess að kanna frostþol. Þrjár meðferðir voru frystar niður í -9°C, -13,5°C og -15,5°C. Fjórða meðferðin var óskemmd. Í ljós kom að frostþol róta var nokkuð breytilegt frá einum tíma til annars yfir veturinn og rótarvöxtur í óskemmdum plöntum sveiflaðist til, sem bendir til árstíðasveiflna í rótarvexti plantnanna. LT50-gildi fyrir frostþol í rótum var -13,9°C seint í janúar (50% plantna dauð), en þegar við -10,6 stiga frost (LT10-gildi) voru komnar í ljós miklar rótarskemmdir (10% plantna dauð). Eftir fyrsta vaxtarsumarið frá gróðursetningu meðferðanna var ársvöxtur marktækt minni á plöntum sem höfðu verið frystar, eða 23%, 54% og 72% minni, samanborið við óskemmdar plöntur. Viðmiðunarplöntur og þær sem ekki höfðu verið frystar við meira en -9°C voru allar lifandi eftir fyrsta vaxtarsumarið. Lifun hjá plöntum sem frystar höfðu verið við ‑13,5°C reyndist 85% og 27% hjá þeim sem höfðu verið frystar við -15,5°. Eftir annað vaxtarsumarið hélt lifun áfram að minnka hjá öllum frostskemmdum plöntum og vöxtur þeirra var áfram minni en óskemmdra plantna.
Það að afföll rússalerkiplantna vegna frostskemmda á rótum skuli halda áfram eftir fyrsta vaxtarsumarið frá gróðursetningu er áminning um að áhrif slíkra skemmda geta verið langvarandi. Sveiflur á rótarfrostþoli ungra lerkiplantna undirstrika líka nauðsyn þess að vanda til verka þegar plöntur eru fluttar úr gróðurhúsi til geymslu utandyra.