Í Fréttablaðinu í dag (föstudaginn 13. ágúst 2007, bls. 2) birtist eftirfarandi frétt:
Eitt skilyrða fyrir skráningu Þingvalla á heimsmynjaskrá er að eyða framandi gróðri í þinghelginni:
Fella öll barrtré innan þinghelgi
Náttúra Öll barrtré innan þinghelgi Þingvalla, um eins ferkílómetra svæði, verða felld á næstu árum. Barrtré á svæðinu í kring verða einnig grisjuð verulega. Trén verða felld vegna þess að þau eru ekki hluti af upprunalegum trjágróðri á Þingvöllum. Um nokkur hundruð tré er að ræða.
Sigurður K. Oddsson þjóðgarðsvörður segir að þegar sótt hafi verið um að Þingvellir verði á heimsminjaskrá hafi Sameinuðu þjóðirnar tilgreint að barrtrén skyldu fjarlægð. Í þjóðgörðum sé ekki venjan að gróðursetja framandi trjátegundir, og stefnan sé að varðveita upprunalegan gróður.
Þinghelgin nær frá Þingvallavatni inn að Öxarárfossi til norðurs og frá efri brún Almannagjár að Flosagjá til austurs.
"Ef landeigendurnir sjálfir vilja gera þetta þá er það bara þannig, en ég held að það séu ákaflega margir á móti þessu," segir Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. "Þetta er gróður sem hefur sett svip á staðinn og er merkar minjar um skógræktarsögu svæðisins."
Í könnun sem Gallup gerði fyrir Skógrækt ríkisins árið 2004 var meðal annars spurt um afstöðu fólks til barrtrjáa á Þingvöllum. Aðeins fjögur prósent töldu að útrýma ætti barrtrjám á Þingvöllum, en mikill meirihluti taldi að þeim ætti að þyrma.
(Sjá ennfremur leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu, mánudaginn 16. júlí 2007)
Eins og fram kemur í fréttinni, gerði Skógrækt ríkisins könnun árið 2004 þar sem meðal annars var spurt um afstöðu almennings til barrtrjáa á Þingvöllum. Nánar er sagt frá þeirri viðhorfskönnun HÉR, í grein Sherry Curl og Hrefnu Jóhannesdóttur í Skógræktarritinu 2005.
Mynd: Afstaða íslensks almennings til barrtrjánna í þjóðgarðinum á Þingvöllum, skv. viðhorfskönnun IMG-Gallups sem unnin var fyrir Skógrækt ríkisins í ágúst og september árið 2004.
Eins og fram kemur HÉR er í dag rétt öld liðin frá fæðingu Hákonar Bjarnasonar, fyrrverandi skógræktarstjóra. Því er við hæfi að endurbirta hér grein sem Hákon ritaði haustið 1983 þar sem einkum er fjallað um deilur á fyrri tíð, um tilvist barrtrjáa á Þingvöllum.
Hákon Bjarnason: Um barrviði og lauftré (Morgunblaðið 26. október 1983)
Sá ágæti maður, Helgi Hálfdanarson, skrifar stutta grein í Morgunblaðið hinn 1. október, þar sem hann bendir á að aðgát skuli höfð þegar barrtré eru gróðursett í útivistarsvæði almennings. Ég er honum sammála. En svo er margt sinnið sem skinnið, o því gæti okkur greint á í mörgum atriðum þegar til kastanna kæmi.
Mjög er þakkarvert að grein Helga er skrifuð af skilningu og hógværð. Því höfum við skógræktarmenn aldrei átt að venjast. Í því sambandi rifjast upp fyrir mér æðið kringum 1960, þegar náttúruverndarfólk, með og án gæsalappa, vildu friða „hina ósnortnu náttúru landsins“ og uppræta alla barrviði á Íslandi, meðal annars gamla furulundinn á Þingvöllum.
Ég er sammála Helga Hálfdanarsyni í því, að barrtrjám hefur verið plantað á óþarflega marga staði á Þingvöllum. Ég get líka sagt frá því, að bæði8 ég og aðrir skógræktarmenn höfum upprætt töluvert af ungum barrtrjám, sem okkur þótti til óprýði.
Mér er ekki kunnugt um hvers vegna þeir Ryder skipstjóri og Tryggvi Gunnarsson völdu fyrstu tilraun til skógræktar hér á landi stað á Þingvöllum, þar sem nú er gamli furulundurinn. Hann er orðinn 84 ára og er minnisvarði um merkilegt framtak, sem lét margt gott af sér leiða.
Fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum var Guðmundur Davíðsson, kennari. Hann var jafnframt einn af fyrstu náttúruverndarmönnum landsins ásamt A.F. Kofoed-Hansen, skógræktarstjóra. Meðal annars hafði Guðmundur unnið við gróðursetningu í furulundinum um síðustu aldamót og hafði hann mikið dálæti á lundinum er hann tók að vaxa á hæðina fyrir og eftir 1930.
Þegar Skógræktarfélag Íslands gerði smávægilegar tilraunir með innflutning barrtrjáa um og eftir 1936 voru hvergi til afgirtir reitir til að setja þau niður nema við Rauðavatn og svo í þjóðgarðsgirðingunni á Þingvöllum. Í önnur hús var ekki að venda, og Guðmundur Davíðsson tók boði félagsins með þökkum er stjórn þess sendi barnaskólabörn með trjáplöntur austur. Ég var meðal annarra við gróðursetningu plantna á spönginn í Flosagjá.
Er árin liðu og þegar fjallafururnar á spönginni voru farnar að hækka og breiða úr sér fannst mér sem þær væru illa settar þarna og mættu gjarnan víkja. Þá var sér Jóhann Hannesson orðinn umsjónarmaður Þingvalla og ég vék að því við hann, að réttast væri að fækka furunum á spönginni og láta þær hverfa smátt og smátt. Ég mann ekki svar hans orðrétt, en það var eitthvað á þessa leið: Þú veist ekki hve veturnir geta verið dimmir og þrúgandi hér á Þingvöllum og hvílík hressing að er um miðjan vetur að ganga út á spöngina á milli sígrænna greina. Ef fururna hefðu ekki verið þar væri ég eflaust farinn frá Þingvöllum fyrir nokkrum árum.
Séra Jóhann hefur haft sömu tilfinningu fyrir sígrænum trjám og Stephan G., er hann kvað um greniskóginn: „Blettur lífs á líki fróns lands og vetrarprýðin.“
En það voru ekki bara við Guðmundur Davíðsson, sem plöntuðum óhelgum viðnum á helgan völl. Bæði Eyfirðingafélagið og Árnesingafélagið fengu góðfúslega leyfi Þingvallanefndar til að planta ungviði í tiltekin svæði. Þar er einnig kominn upp mjög fallegur minningarlundur um Jón Jóhannsson frá Skógarkoti, og að beiðni Þingvallanefndar var eitt sinn plantað allmiklu af grenitrjám við Ölkofrahól. Loks var plantað í Hrafnagjárhallið allmiklu af trjáplöntum ýmissa tegunda árið 1958 að beiðni Þingvallanefndar.
Svo má ekki gleyma því, að eftirmaður Guðmundar Davíðssonar, Thor Brandt, var enginn eftirbátur hans í að planta barrtrjám á ýmsa berangursstaði. Ennfremur hafði Jón Guðmundsson, eigandi Valhallar í tugi ára og landsþekktur veitingamaður, mikinn áhuga á að planta trjám umhverfis og í nánd við Valhöll.
Það er því við marga að sakast þegar rætt er um barrtré á Þingvöllum, og enda þótt létt verk væri að útrýma þar öllum þessum aðskotagróðri er óbíst að slíkt tækist án stympinga.
Fyrir einum 25 árum var ég staddur á Þingvöllum í norðaustanbáli og kulda en glampandi sólskini. Reikaði ég þá sem oftar upp í furulundinn, en þar voru þá fyrir nokkrir hópar manna og kvenna í skjólinu af trjánum, og var sumt af fólkinu í sólbaði. Einhver sem kannaðist við mig hafði orð á því að hér væri gott að njóta sólarinnar. Ég tók auðvitað undir það, en sagði að kannski færi nú að sneiðast um skjólin á Þingvöllum, þar sem hópur manna væri tilbúinn að reiða axir að rótum þeirra. T´ren tilheyrðu ekki íslenskri náttúru og yrðu því að víkja að dómi náttúruverndarmanna. Maðurinn rak upp stór augu, hváði og spurði svo hvers konar fólk það væri, sem vildi ræna aðra skjóli og hlýju. Ef þetta fólk gerði alvöru úr hótun sinni, þá skyldi hann safna að sér liði til að mæta slíkum ...., sem hann nefndi.
Af þessum tveim dæmum má sjá að meiningar manna eru skiptar, þegar um plöntun erlendra trjáa er að ræða, einkum á almenningum. Mér er óhætt að fullyrða, að skógræktarmenn hafa þegar tekið tillit til þess, að kæfa ekki íslenskar plöntur í erlendum trjám, þar sem ástæða þykir til.
Um gróðursetningu barrtrjáa í Heiðmörk vil ég sem minnst segja. Þar er við stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur að eiga. En þess verða menn að minnast, að friðun Heiðmerkur er engum meira að þakka en stjórn Skógræktarfélags Íslands, sem barðist ósleitilega fyrir því, að Reykavíkingar eignuðust griðland í nánd við borgina. Sú barátta tók tíu ár, en að auki safnaði stjórn félagsins allmiklu fé og girðingarefni til að létta bæjarfélaginu friðun landsins. Þegar skipulagi Skógræktarfélags Íslands var breytt haustið 1946 tók Skógræktarfélag Reykjavíkur að sér öll umsvif varðandi Heiðmörk og hefur gegnt því síðan á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur.
Því er síst að furða þótt starfsemin í Heiðmörk mótist mjög af starfi skógræktarfélaga. Þótt plöntun barrtrjáa hafi verið allmikil í Heiðmörk ættu menn að minnast þess, að hún er býsna stór, um 2500 hektarar alls, og ekki hefur verið plantað í nema um þriðjung hennar. Mörg eru þau svæði, sem engu hefur verið plantað í t.d. skógarbrekkurnar undir Hjöllunum, þar sem birki hefur komið upp af gömlum rótum, svo og mjög víðlend svæði í hraununum ásamt Garðaflötum og mestöllum Löngubrekkum.
Þegar reglur voru settar um meðferð lands í Heiðmörk var ákveðið að einstaklingar gætu ekki fengið þar inni. En félagssamtök voru velkomin að því að helga sér ákveðnar spildur, ef þau tækju að sér að lanta trjám í þær. Mörg félög eiga þar reiti, og sjá sum þeirra mjög vel um þá svo að til fyrirmyndar er, eins og t.d. Félag símamanna og Ferðafélag Íslands.
Mér er það mjög minnisstætt þegar verið var að semja reglur fyrir gróðursetningu í Heiðmörk höfðu sumir orð á því, að fá þyrfti sérstakt plöntunarfólk til þess að ekki yrðu mikil afföll á plöntuninni. Þá kvað formaður Skógræktarfélags Íslands sér hljóðs, Valtýr Stefánsson ritstjóri, og sagði að félagsmenn ættu sjálfir að annast alla plöntun undir umsjón verkstjóra, því að þetta ætti að vera skóli fyrir þá til að læra bæði plöntun og alla meðferð ungviðis. Væri þetta þýðingarmeira heldur en þótt nokkrar plöntur færu ekki rétt niður, enda hefur þetta orðið til þess, að hundruð manna, ef ekki þúsundir, vita betur en áður hvernig á að handleika ungar trjáplöntur.
Hákon Bjarnason er fyrrverandi skógræktarstjóri
(úr Morgunblaðinu, miðvikudaginn 26. október 1983)