Um 30 merktar trjátegundir frá 70 stöðum á jörðinni

Stálpastaðaskógur er skemmtilegur skógur í hlíðóttu landslagi í norðanverðum Skorradal. Um þennan vinsæla skóg liggja göngustígar með um þrjátíu merktum trjátegundum frá sjötíu stöðum á jörðinni. Nú er kominn út bæklingur með upplýsingum um skóginn og korti af gönguleiðum.

Stálpastaðaskógur er í landi eyðibýlisins Stálpastaða sem er um það bil fyrir miðju Skorradalsvatns að norðanverðu. Hjónin Haukur og Soffía Thors gáfu Skógrækt ríkisins jörðina árið 1951. Þá var skógurinn sem fyrir var friðaður. Sagt er að þessi jörð hafi aldrei hentað vel hefðbundnum búskap en þeim mun betur hentar hún til skógræktar enda er Stálpastaðaskógur einn glæsilegasti skógur landsins. Góðar gjafir hafa verið gefnar til skógræktar á Stálpastöðum. Hjónin ingibjörg og Þosteinn Kjarval gáfu til dæmis fé til gróðursetningar árið 1952 og norski auðjöfurinn Ludvig G. Braathen gaf  einnig fé til starfsins í nokkur ár um miðjan sjötta áratuginn. Fleiri góðar gjafir hafa borist skóginum og fólk lagt fram vinnu sína við ræktunarstarfið og árangurinn leynir sér ekki.

Í nýútkomnum bæklingi um Stálpastaðaskóg er kort af skóginum og lýst sjö spennandi gönguleiðum um svæðið. Leiðirnar eru fjölbreytilegar og mjög miserfiðar en Stálpastaðaskógur er í mjög hlíðóttu landslagi og því eru brattir kaflar á flestum gönguleiðanna. Víða eru þó tröppur sem greiða för göngufólks. Þótt Stálpastaðaskógur sé fyrst og fremst efnilegur timburskógur er þar margt annað spennandi að sjá, bæði sögulegt og náttúrufarslegt. Til dæmis er þar trjásafn með mörgum trjátegundum og alls munu vera í skóginum um 30 trjátegundir frá 70 stöðum í heiminum.

Bæklingurinn um Stálpastaðaskóg liggur frammi í upplýsingamiðstöðinni í Borgarnesi og verður einnig dreift til nokkurra fjölsóttra ferðamannaststaða í Borgarfirði. Hann má einnig nálgast hjá skógarverðinum í Hvammi í Skorradal


Smellið á myndina til að stækka hana


Texti: Pétur Halldórsson