Formlega opnaður á laugardag með hátíðardagskrá

Opinn skógur í Brynjudal í Hvalfirði verður formlega opnaður á laugardag, 16. september. Í tilefni af opnuninni verður hátíðardagskrá með skemmtun fyrir alla fjölskylduna og eru allir velkomnir.

Skógurinn í Brynjudal er sá sextándi sem opnaður er undir merkjum verkefnisins Opinn skógur. Sá fyrsti var opnaður í Daníelslundi í Borgarfirði árið 2002. Skógræktarfélag Íslands stendur að verkefninu ásamt aðildarfélögum og bakhjörlum. Núverandi bakhjarl þess er  Icelandair Group. Á svæðunum hefur verið komið fyrir fyrirmyndar útivistaraðstöðu, s.s. skógarstígum, merkingum og leiðbeiningum.

Skógræktarsvæðið í Brynjudal er kjörið berjatínslusvæði. Þar er líka að finna þrautabraut sem hentar fyrir börn frá um tíu ára aldri. Fjöldamargar gönguleiðir eru á svæðinu og á hátíðinni á laugardag verður boðið upp á grillaðar pylsur.


Dagskráin er annars á þessa leið.

Kl. 13:45 Tónlistaratriði
Kl. 14:00 Opinn skógur formlega opnaður af Jóni Gunnarssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Ávörp
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Icelandair Group
Kl. 14:30 Léttar veitingar
Kl. 15:00 Sirkus Íslands verður með skemmtiatriði fyrir alla aldurshópa
Tálgunarnámskeið (kl. 14:00 - 16:00). Ung börn (6-8 ára) verða að vera í fylgd fullorðinna
Þrautabraut og fleira
Kl. 16:00 Dagskrárlok