Elís Björgvin Hreiðarsson
Býr í bjálkahúsi á Kjalarnesi
Elís Björgvin Hreiðarsson hefur tekið til starfa sem umsjónarmaður fasteigna á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Eitt fyrsta verk hans var að dytta að ryðguðum rörum í gróðurhúsi stöðvarinnar og fyrir liggur að mála hús að utan þegar vora tekur fyrir alvöru.
Elís Björgvin er fæddur og uppalinn Reykvíkingur en segist eiga allar ættir sínar að rekja vestur á firði. Hann er bifvélavirkjameistari að mennt og hefur starfað í þeirri grein í ríflega aldarfjórðung, lengst af hjá Sambandinu þar sem hann gerði aðallega við amerísku bílana en seinni árin hjá B&L og Ingvari Helgasyni. Elís segir að nú hafi verið kominn tími til að breyta til og hann sé mjög spenntur fyrir þeim verkefnum sem honum hafa verið falin á Mógilsá.
Ekki er Elís alveg ókunnugur skógrækt og annarri ræktun því kona hans, Bryndís Edda Snorradóttir, er garðyrkjufræðingur og hún hefur „dröslað honum með sér í garðrækt“, eins og Elís orðar það sjálfur. Saman hafa þau til að mynda tekið þátt í starfi Skógræktarfélags Kjalarness. Það félag er nokkurs konar nágranni Rannsókastöðvar skógræktar á Mógilsá enda segist Elís þekkja sig nokkuð vel á Mógilsá og oft hafa gengið þar um svæði Skógræktarinnar.
Skógræktarfólki kann að þykja forvitnilegt að vita að Elís og Bryndís búa í myndarlegu bjálkahúsi sem þau reistu sér um aldamótin við Jörfagrund á Kjalarnesi. Bjálkarnir í húsið komu tilsniðnir frá Finnlandi og var staflað upp eftir númerum eins og gengur og gerist. Lóðrétt í bjálkaveggina voru settir 12 mm snittaðir teinar með tveggja metra millibili og segir Elís að húsið hafi verið átta ár að setjast að fullu. Reglulega var hert upp á teinunum og sagað neðan af þeim þar til ekki var hægt að herða meira og það tók semsé átta ár. Húsið segir Elís að sé mjög þétt og gott en ekki síður hlýtt. Það er óeinangrað fyrir utan þá einangrun sem felst í viðnum í bjálkunum og svo virðist sem það dugi og vel það. Hitunarkostnaður reynist til dæmis vera þó nokkru lægri í bjálkahúsinu en í húsunum í kring. Þann hluta ársins sem bjartur er hitnar húsið líka vel upp af sólarljósinu og geymir vel í sér varmann.
Aðspurður um þau verkefni sem fram undan séu á Mógilsá nefnir Elís að þetta sé í raun eins og stórt heimili þar sem þurfi að sinna daglegu viðhaldi og eftirliti, halda öllu í góðu horfi, að bílarnir séu hreinir og í lagi og að húsnæði, tól og tæki séu í góðu standi og tilbúin til brúks. Nýi ráðsmaðurinn sá ofsjónum yfir hitarörunum í gróðurhúsinu sem orðin voru ryðguð og lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að hreinsa þau upp og mála. Fleira þurfi líka að mála. Skemman á staðnum var nýlega máluð en önnur hús í stöðinni eru orðin málningar þurfi og að því verður hugað þegar vora tekur fyrir alvöru, segir Elís Björgvin.
Greinilegt er að nýr umsjónarmaður fasteigna eða ráðsmaður á Mógilsá ætlar ekki að sitja þar auðum höndum enda segist hann vera þannig gerður að hann þurfi að vera stöðugt að. Skógrækt ríkisins býður Elís Björgvin Hreiðarsson velkominn til starfa og óskar honum velfarnaðar í störfum sínum.