Samstarfsaðilar hittust í grenndarskógi HÍ í hádeginu á síðasta vetrardegi og undirrituðu nýjan samstarfssamning um Lesið í skóginn verkefnið í Reykjavík. Samstarfsaðilar Skógræktar ríkisins eru Menntasvið, Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar og Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Markmið samstarfsins er að efla þverfaglegt útinám um skóg og skógarnytjar í grenndarskógum. Af þessu tilefni fékk Háskóli Íslands formlega afhentan grenndarskóginn í Öskjuhlíðinni en hann hefur verið í notkun í nokkur ár. Hann hefur fram til þessa verið mest notaður í tengslum við Lesið í skóginn námskeiðin og list- og verkgreinakennslu í KHÍ/HÍ. Með þessu samkomulagi er vonast til að fleiri námsbrautir og fög muni nýta hann í framtíðinni.

Einnig var gengið frá grenndarskógasamningi við ÍTR í Nauthólsvík sem mun nýtast í náttúrutengt íþrótta- og æskulýðsstarf. Reiturinn liggur að HÍ reitnum að vestanverðu og mun sem slíkur verða nokkurs konar sýnireitur fyrir skógartengt íþrótta- og æskulýðsstarf í útinámi.  

Verkefnið Lesið í skóginn hefur starfað í áratug. Með undirritun þessa samkomulag hefst nýtt tímabil þar sem stigin verða ný skref í þróun útináms í grenndarskógum sem byggð verða á reynslu og samstarfi við þá 20 grunnskóla í Reykjavík sem þegar hafa fengið grenndarskóg og nota hann í útinámi. Einnig verður stuðst við þá reynslu sem fengist hefur í samstarfi við HÍ eftir að Lesið í skóginn námskeiðin voru í boði sem valnámskeið s.l. 5 ár. Samstarfið hefur farið fram á gagnvirkum þverfaglegum grunni og munu þær áherslur verða áfram í því þróunarsamstarfi sem framundan er.

Valgerður Janusdóttir skrifaði undir samkomulagið f.h. Ragnars Þorsteinssonar, fræðslustjóra Menntasviðs, Ellý Katrín Guðmundóttir sviðsstýra f.h. Umhverfis- og samgöngusviðs og Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.


Á myndinni má sjá (f.v.) Jón Torfa Jónasson, Valgerði Janusdóttur, Ellý Katrínu Guðmundsdóttur og Ólaf Oddsson.


Texti og mynd: Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktar ríkisins.