Brynjar Skúlason hefur verið ráðinn starfsmaður Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsár. Hann mun sinna rannsóknum á sviði skógerfðafræði og trjákynbóta, fyrst um sinn aðallega á fjallaþin til jólatrjáaræktar. Brynjar leggur stund á doktorsnám við Kaupmannahafnarháskóla á þessu sviði samhliða starfi sínu á Mógilsá en verður með aðalaðsetur í Gömlu gróðrarstöðinni, starfsstöð Skógræktar ríkisins á Akureyri.

Brynjar er með MSc próf í skógfræði frá Ási í Noregi. Hann starfaði í nokkur ár sem skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins, bæði á Norðurlandi og Suðurlandi, sem svæðisstjóri Norðurlandsskóga og hefur því lengst af unnið við áætlanagerð og fræðslu fyrir skógarbændur, en samhliða stundað ýmsar rannsóknir í skógrækt, mest frostþolsprófanir á fjölda tegunda.