Mynd af vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Mynd af vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Skógræktin á aðild að nýjum starfshópi um varnir gegn gróðureldum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett á laggirnar. Hópurinn á að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum með forvörnum og fræðslu um gróðurelda. Reynslan af baráttu við gróðurelda, bæði hér á landi og erlendis, sýnir að til að ná árangri þurfi að samstilla alla sem koma að slökkvistarfi eða verða fyrir áhrifum af gróðureldum og beina þurfi forvörnum og fræðslu þvert á samfélagið.

Til marks um aukna hættu af þurrum gróðri og eldsmat í náttúru Íslands hafa slökkvilið víða um landið sinnt alls 67 útköllum vegna gróðurelda frá 9. apríl í vor. Ljóst er að gróðureldaváin er komin til að vera, m.a. vegna hlýnunar jarðar og aukinnar gróðursældar á landinu. Slökkvilið og viðbragðsaðilar hafa brugðist hratt við krefjandi aðstæðum en styrkja þarf stoðir og bæta búnað þess fólks sem sinnir slökkvistarfi og björgunaraðgerðum, eins og segir í frétt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Skógur er ekki eldfimasti gróðurinn en ef gróður kemst í sinu og annan þurran lággróður í grennd við skóga geta skógarnir verið í mikilli hættu og tjónið orðið mikið. Því er mikilvægt að huga að skipulagi skóga, aðstöðu í skógunum og þeim stöðum þar sem líklegast má telja að eldur geti blossað upp. Þurr lággróður nærri vegum eða samkomu- og áningarstöðum fólks er dæmi um líklega uppsprettu gróðurelda.

Aukin fræðsla og viðbúnaður slökkviliða og almennings

Starfshópinn um varnir gegn gróðurseldum skipa sérfræðingar með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Í honum eru fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Félagi slökkviliðsstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Lögreglustjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógræktinni, Veðurstofu Íslands og Verkís. Formaður hópsins er Regína Valdimarsdóttir, forstöðumaður á sviði brunavarna hjá HMS.

Starfshópurinn á að stuðla að umræðu og fræðslu um gróðurelda í samfélaginu, kortleggja nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum er snerta gróðurelda og stuðla að breytingum þar sem þess reynist þörf. Síðast en ekki síst mun hópurinn einbeita sér að því að auka viðbúnað slökkviliða og almennings.

Í frétt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir Regína Valdimarsdóttir, formaður starfshópsins: „Gróðureldar eru vaxandi vá hér á landi og við því verðum við að bregðast. Viðbragðsaðilar hafa staðið í ströngu síðustu vikurnar í ítrekuðum útköllum vegna gróðurelda sem hafa gert vart við sig víðs vegar um landið en nú ríkir hættustig og óvissustig almannavarna í nokkrum landshlutum vegna hættu á gróðureldum. Þessi nýstofnaði starfshópur mun taka til óspilltra málanna að bregðast við þessari vá sem gróðureldar eru, enda varðar þetta öryggi okkar allra. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er með málið í algjörum forgangi og stofnunin treystir því að árangur náist í gegnum samstarf við aðila starfshópsins. Allir eru af vilja gerðir að hindra að gróðureldar verði jafnstórt vandamál hér á landi og við sjáum hjá öðrum þjóðum,“ segir Regína.

grodureldar.is

Starfið þarf ekki að byrja frá grunni enda hefur mjög gott starf farið fram í samstarfi Skógræktarinnar, Brunavarna Árnessýslu, Landssambands sumarhúsaeigenda, Landssamtaka Skógareigenda, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Verkís. Árangurinn af því starfi er meðal  annars sú fræðsla sem er að finna á vefnum grodureldar.is. Fagnaðarefni er að nú skuli tekið enn frekar á þessum málum.

Frétt: Pétur Halldórsson
Heimild: hms.is