Skjámynd af vef Yggrasils Carbon
Skjámynd af vef Yggrasils Carbon

Yggdrasill Carbon er nýtt, austfirskt nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að framgangi vottaðra, íslenskra kolefniseininga sem nýta má til kolefnisjöfnunar. Það óskar nú eftir samstarfi við landeigendur um allt land sem vilja nýta land sitt til að búa til seljanlegar kolefniseiningar með alþjóðlegri vottun.

Fyrirtæki hérlendis og erlendis sem hafa náð góðum árangri í því að minnka kolefnissporið en búa enn við óhjákvæmilega losun, kalla í sífellt meiri mæli eftir gegnsæju og heildstæðu kerfi til að þau megi ná því markmiði að verða kolefnishlutlaus 2040. Sú leið sem mætir þeim þörfum eru vottaðar kolefniseiningar.

Yggdrasill Carbon hefur nú opnað vef á slóðinni yggcarbon.com þar sem finna má nánari upplýsingar um markmið og tilgang félagsins. Starfsemi þess er hafin og óskar félagið nú eftir landeigendum og skógareigendum í samstarfsverkefni um skógrækt til vottaðrar kolefnisbindingar. Leitað er bæði að áhugasömum skógareigendum sem eru nú þegar í nýskógrækt og landeigendum sem vilja ráðast í nýskógrækt undir þeim formerkjum að binda kolefni og búa til vottaðar kolefniseiningar. Skógræktin er meðal samstarfsaðila þessa nýja nýsköpunarfyrirtækis.

Óseyri  í Stöðvarfirði er dæmi um verkefni sem Yggdrasill vann að í fyrrasumar ásamt Skógræktinni. Skýrsla kom út um það verkefni í Riti Mógilsár á liðnum vetri og þar er að finna spá um kolefnisbindingu á svæðinu. 

Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Yggdrasil Carbon. Netfang hennar er ingibjorg@yggcarbon.com.

Frétt: Pétur Halldórsson