Nýtt skipurit Skógræktarinnar frá og með 20. mars 2020
Skógræktin innleiðir nýtt skipurit stofnunarinnar föstudaginn 20. mars 2020, sem er vorjafndægur. Nýja skipuritið endurspeglar betur nýlega sett lög um skóga og skógrækt og tekur tillit til reynslunnar sem fengin er frá því að stofnanir voru sameinaðar í Skógræktina árið 2016. Jafnframt eru loftslagsmál nú stærri þáttur í starfsemi stofnunarinnar en áður.
Tæp fjögur ár eru liðin frá sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna fimm í Skógræktina. Að sögn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra hefur flest gengið vel frá sameiningunni. Hjá stofnuninni beri fólki þó skylda til að hafa augun opin og athuga hvort hlutirnir geti ekki gengið enn betur. Því hafi verið athugað hvort ástæða væri til að endurskoða atriði í skipuriti stofnunarinnar. Einnig hafi ný skógræktarlög og nýjar áherslur komið til, t.d. vegna loftslagsmála, og gott hafi þótt að skipuritið endurspeglaði það.
Nýtt skipurit sem hér birtist hefur átt sér u.þ.b. mánaðarlanga meðgöngu. Það hefur verið kynnt öllu starfsfólki Skógræktarinnar á fyrri stigum, rætt hefur verið sérstaklega við það starfsfólk sem mestar breytingar eru hjá og framkvæmdaráð hefur fjallað um það á fundum. Vonast er til að þær breytingar sem þetta skipurit felur í sér verði til bóta fyrir starf stofnunarinnar.
Helstu áherslur og breytingar
Á skipuritinu er rauð, lágrétt píla sem skiptir mestu máli. Samskipti, teymisvinna og verkefni eru þvert á svið eftir því sem hentar og án hindrana. Þröstur segir að sviðin séu ekki síló sem beini hlutunum í einn farveg. Jafnframt sé lög áhersla á að fólk sé upplýst um það sem er að gerast hjá stofnuninni, til dæmis að sviðstjórum sé alltaf kunnugt af samstarfi og nýjum verkefnum sem efnt er til. Sú breyting sem mest er áberandi á skipuritinu er að í stað skógarauðlindasviðs koma tvö svið, þjóðskógar og skógarþjónustan.
Þjóðskógarnir mynda nú sérstakt svið ásamt þeim verkefnum sem eru hvað tengdust þeim. Það eru m.a. verkleg samstarfsverkefni við Landgræðsluna (Hekluskógar, Þorláksskógar, Hólasandur o.fl.) og aðra aðila (Landsvirkjun, Faxaflóahafnir o.fl.). Hreinn Óskarsson verður sviðstjóri þjóðskóga en heldur jafnframt áfram að sinna gerð Landsáætlunar í skógrækt sem hann gerði á samhæfingarsviði í fyrra skipuriti.
Skógarþjónustan sinnir skógrækt á lögbýlum. Þar eru einnig fræ- og plöntumál og verkefnið Loftslagsvænni landbúnaður (LOL) sem Þröstur segir að eflaust eigi eftir að stækka verulega. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir er sviðstjóri skógarþjónustunnar.
Gamla samhæfingarsviðið heldur hópinn og myndar nú samskiptadeild innan rekstrarsviðs. Þar eru vistuð verkefni sem snúa að samskiptum við almenning (kynningarmál), við einstaka hópa (fræðslumál, markaðsmál, skipulagsmál) og inn á við (mannauðsmál). Útgáfa fellingarleyfa skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt bætist við hjá skipulagsfulltrúa. Gunnlaugur Guðjónsson er sviðstjóri rekstrarsviðs.
Rannsóknasvið er að mestu óbreytt en þar bætast við verkefni við flokkun birkiskóga og skógaskrá skv. nýju lögunum. Þar er loftslagsdeild nú sett í skipuritið, en hún fæst við skóg og loftslagsbreytingar, landupplýsingar og skógaskrá. Edda Sigurdís Oddsdóttir er sviðstjóri rannsóknasviðs. Staða fagmálastjóra er óbreytt en hann tekur að sér stærra hlutverk við gerð Landsáætlunar. Aðalsteinn Sigurgeirsson er fagmálastjóri.
Starfsfólki Skógræktarinnar og landsmönnum öllum er óskað til hamingju með nýtt og endurskoðað skipurit.