Lítið brot af rekstrarkostnaði dugar til að bæta samviskuna

Kolviður er verkefni sem Skógræktarfélag Íslands og Landvernd hrundu af stað í kjölfar tónleika sem hljómsveitin Fræbbblarnir hélt árið 2003 til minningar um Joe Strummer, söngvara hljómsveitarinnar Clash. Strummer hafði sjálfur stofnað sjóð, Future Forests, sem ætlað var að hvetja til bindingar kolefnis í skógi. Sjóður sá hefur nú vaxið og dafnað og heitir The Carbon Neutral Company. Tónleikar Fræbbblanna 2003 voru haldnir í samvinnu við Landvernd og Skógræktarfélag Íslands og ágóði tónleikanna rann til Kolviðar. Nafnið varð til á hugarflugsfundi Fræbbblanna skömmu fyrir formlega stofnun sjóðsins.

Markmið Kolviðar er, eins og segir orðrétt á vefsíðu verkefnisins:

[...] „aukin binding kolefnis í skógarvistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti, að binda jarðveg og draga úr jarðvegseyðingu, að auka vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda, og að stuðla að fræðslu um tengd málefni.

Markmið verkefnisins eru því margþætt, á sama tíma og kolefnisbinding á sér stað, á sér stað binding jarðvegs og auðgun gróðurvistkerfa.

Með því að gera aðilum kleift að taka ábyrgð á eigin losun og bregðast við með áþreifanlegum hætti næst árangur. Kolviður mun þannig hvetja Íslendinga til þess að verða fyrsta þjóð heims til að kolefnisjafna útblástursáhrif samgöngutækja sinna með skógrækt og uppgræðslu lands.“

Á meðfylgjandi mynd hefur verið sett upp dæmi með tveimur heimilisbílum. Annar bíllinn gengur fyrir bensíni og eyðir um 10 lítrum á hundraðið að meðaltali.. Miðað við að eknir séu 15.000 kílómetrar á ári losna frá bílnum 3,4 tonn af koltvísýringi. Þá dugar eingreiðsla til Kolviðar upp á 6.861 krónu til að binda í skógi kolefnið sem bíllinn losar. Gróðursetja þarf 32 tré.

Í hinu tilfellinu er díselbíll sem ekið er 20.000 kílómetra á ári. Hann eyðir að meðaltali um 5 lítrum á hundraðið og losar 2,6 tonn af koltvísýringi.  Vegna hans er eingreiðslan 5.279 krónur. Gróðursetja þarf 25 tré.

Þetta geta bíleigendur nú reiknað út, hver fyrir sig, og bætt fyrir þann kolefnisútblástur sem fylgir notkun bílsins með því að rækta skóg. Á Íslandi er nóg landrými til skógræktar og mikils um vert að bæta fyrir alla þá gróðureyðingu sem hlotist hefur af byggð í landinu frá landnámi. Fyrir framlag til skógræktar fáum við betra land, hömlum gegn gróðurhúsaáhrifum og byggjum upp atvinnu og auðlind í skógum framtíðarinnar.

Vefsíða Kolviðar er á slóðinni www.kolvidur.is.


Fagurblár bíll í fögrum skógi
Mynd: Taber Andrew Bain/Wikimedia Commons