Hákon Bjarnason var skógræktarstjóri í 42 ár, 1935-1977.
Hákon Bjarnason (1907-1989)
Í dag, föstudaginn 13. júlí 2007, eru 100 ár liðin frá fæðingu Hákonar Bjarnasonar, fyrrverandi skógræktarstjóra. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir, Ólafssonar ritstjóra og alþingismanns og Ágúst H. Bjarnason dr. phil., prófessor við Háskóla Íslands. Hákon var elstur fimm systkina, hin voru Helga Valfells, Jón Ólafur, María Ágústa Benedikz og Haraldur, en þau eru öll látin. Vísast hefur æskuheimili Hákonar mótað hann til orðs og æðis, en prófessor Ágúst var ekki bara háskólakennari heldur einnig alþýðufræðari og liggja eftir hann ritverk um sálarfræði, heimspeki og ýmis vísindi, sem ætluð voru til að uppfræða alþýðu manna. Má þar nefna heimspekisöguna „Yfirlit yfir sögu mannsandans“, sem hafði veruleg áhrif á heila kynslóð manna og þykir enn hið merkasta ritverk. Sigríður, móðir Hákonar, sem hafði í bernsku búið í Ameríku með foreldrum sínum, hóf ung kennslu í ensku, meðal annars í Kvennaskólanum í Reykjavík og síðar í Verzlunarskóla Íslands.
Hákon lauk stúdentsprófi frá „Hinum almenna menntaskóla í Reykjavík“ 1926 og hélt þá um haustið til Kaupmannahafnar og lauk prófi í skógræktarfræðum frá Konunglega landbúnaðarháskólanum með 1. einkunn árið 1931. Eins árs verklegt nám stundaði hann síðan í Svíþjóð og varð forst. cand. árið 1932, fyrstur Íslendinga. Veturinn eftir var hann ráðinn aðstoðarmaður á Plantefysiologisk laboratorium við sama háskóla. Auk skógræktarnámsins tók hann einnig „filuna“ svokölluðu, eða cand. phil.-próf, og gerði það að áeggjan föður síns, sem kenndi þá grein við Háskóla Íslands.
Hákon var viðstaddur stofnun Skógræktarfélags Íslands á Þingvöllum 1930 og að loknu námi erlendis hóf hann störf hjá félaginu 1932 og tók við framkvæmdastjórn þess árið 1933. Hann tók þá þegar til við að ferðast um landið á vegum félagsins og afla nýrra félaga og hleypti hann miklum krafti í starfsemina, sem hafði verið lítil fram að því. Mestum tíma varði hann í að koma á fót gróðrarstöðinni í Fossvogi, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur tók við árið 1947. Hákon var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands til ársins 1967, fulltrúi þess í Náttúruverndarráði tvö kjörtímabil frá stofnun og ritstjóri Ársritsins 1936 til 1963. Hákon var kjörinn heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands árið 1977.
Hákon Bjarnason var skipaður skógræktarstjóri og jafnframt skógarvörður í Reykjavík 1. mars 1935. Af mörgu er að taka þessi fyrstu ár, en Hákon talaði jafnan mest um þegar skógurinn í Bæjarstað var girtur, þá Þjórsárdalur og ekki síst Haukadalur fáum árum síðar. Tók Hákon fullan þátt í allri þeirri vinnu. Á árunum 1937 til 1941 var Hákon framkvæmdastjóri Mæðiveikivarna. Mikill erill fylgdi þessu starfi og var haft eftir Hákoni að þá hefði hann misst svefn í eina skiptið á ævinni. Hákon tók þátt í stofnun Landgræðslusjóðs árið 1944 og árið 1967 gaf hann sjóðnum eignarland sitt í Straumi, 230 ha. að stærð, sem varð sjóðnum drjúg tekjulind í mörg ár. Á fyrstu starfsárum sínum rannsakaði Hákon íslenskan jarðveg. Hann var upphafsmaður að öskulagarannsóknum hér á landi, lagði grunninn að þeim og sýndi fram á fyrstur manna að Hekla hefði gosið líparítösku fyrir landnám.
Ekki er unnt að fara hér nánar út í ýmis fleiri störf sem Hákon fékkst við utan vettvangs skógræktarinnar, en hann var félagi í allmörgum félögum og auk Skógræktarfélags Íslands var hann gerður heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Ferðafélagi Íslands. Þá var hann meðlimur í Vísindafélagi Íslendinga. Hákon flutti oft erindi í útvarp og ræður við fjölmörg tækifæri víða um land. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og norsku Ólafsorðunni fyrir störf sín að skógræktarmálum.
Hákon skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit og í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1933-1934 birti hann stefnumótandi grein sem bar yfirskriftina „Framtíðartré íslenskra skóga“. Þar ber hann saman veðurfar á Íslandi og í Alaska og þar viðraði hann fyrst þær hugmyndir og markaði þá stefnu, sem hann lagði mesta áherslu á allan sinn starfsferil, þ.e. um innflutning á trjátegundum, og raunar öllum plöntum, sem auðgað gætu gróðurríki Íslands. Sú merka saga verður ekki rakin hér, en þess má geta að árin 1936 til 1939 flutti Hákon inn ýmsar trjátegundir frá Noregi og bera fjallaþinur og blágreni á Hallormsstað, Lýðveldislundurinn á Tumastöðum og elsti sitkagrenilundurinn í Fossvogi þeirri viðleitni fagurt vitni.
Af öðrum stefnumótandi greinum sem Hákon skrifaði má nefna „Um ræktun erlendra trjátegunda“, sem birt var í Ársritinu árið 1943, en þeim hugmyndum, sem þar komu fram, fylgdi hann eftir með ferð til Alaska 1945 og Noregsför 1947. Í báðum þessum ferðum efndi Hákon til persónulegra sambanda sem urðu grundvöllur fræöflunarstarfs hans, sem entist alla starfsævina. Í Alaskaferðinni fann hann meðal annars alaskalúpínuna, en um hana segir hann í frásögn sinni af Alaskaferðinni: „Einkum leist mér vel á lúpínur, sem uxu eftir endilangri ströndinni meðfram skógarjaðrinum. Geti sú jurt vaxið af sjálfsdáðum hér á landi og breiðst út, er áreiðanlega mikill hagur af því, þar sem lúpínur bæta mjög allan jarðveg, sem þær vaxa í.“
Árið 1942 birti Hákon grein í Ársriti Skógræktarfélags Íslands undir yfirskriftinni „Ábúð og örtröð“, þar sem hann rekur meðal annars orsakir jarðvegs- og gróðureyðingar í landinu, og olli sú grein miklum titringi meðal bænda og forystumanna í landbúnaði. Má segja að með þessum skrifum hafi Hákon hafið fyrir alvöru baráttuna fyrir því að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu, stríðið gegn uppblæstri landsins, sem varð annar stóri þátturinn í lífsstarfi hans. Sú saga verður ekki rakin nánar hér.
Hákon Bjarnason var hugsjónamaður um betra, gróskumeira og fegurra Ísland og hann fylgdi hugsjónum sínum eftir af eldmóði og setti skoðanir sínar fram á djarfan og hispurslausan hátt. Þeirri heimspeki sem hann hafði að leiðarljósi og barðist fyrir var ef til vill best lýst í blaðagrein sem hann skrifaði árið 1952 og nefndi „Gróðurrán eða ræktun“: „Með aukinni þekkingu á náttúrunni og lögmálum lífsins verður mönnum æ ljósara, hve mjög einstaklingar og þjóðfélög eru háð umhverfi sínu, hversu gróður og dýralíf, jarðvegur og veðrátta, ræður allri þróun mannkynsins. Hið gamla hreystiyrði, að maðurinn sé herra jarðarinnar, á sér enga staði. Hitt er sannara, að hann er skilgetið barn móður jarðar, og hann hlýtur því að verða að haga sér samkvæmt boði hennar. Að öðrum kosti verður hann ánauðugur þræll umhverfis síns og aðstæðna, leiðir ógæfu yfir sig en tortímingu yfir afkvæmi sín.“
Hákon var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Magnúsdóttir og eignuðust þau eina dóttur, Ingu. Þau skildu 1942. Seinni kona Hákonar var Guðrún Jónsdóttir Bjarnason og áttu þau fjögur börn: Laufeyju Jóninnu, Ágúst, Björgu og Jón Hákon.
Hákon Bjarnason lést á 82. aldursári, hinn 16. apríl 1989. Hann klæddi land sitt í nýjan búning og því mun minning hans lifa.
Sveinn Guðjónsson
(birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 2007)
Fleiri minningargreinar um Hákon Bjarnason
- Sigurður Blöndal, Morgunblaðið, 28. apríl, 1989
- Haukur Ragnarsson, Morgunblaðið, 28. apríl, 1989
- Hulda Valtýsdóttir, Morgunblaðið, 28. apríl, 1989
- Oddur Guðjónsson, Morgunblaðið, 28. apríl 1989
- Gísli Gestsson, Morgunblaðið, 28. apríl 1989
- Halldór Jónsson, Morgunblaðið, 7. júlí 1989
- Skoðun Tímamóta - sextíu ár liðin frá því Hákon Bjarnason tók við starfi skógræktarstjóra (Haukur Ragnarsson, Morgunblaðið, 5. mars 1995)