Ráðstefnan verður haldin í Öskju, Reykjavík, dagana 16.-18. júní 2008.

Hvaða áhrif hafa loftslagsbreytingar á vistkerfi norðurslóða? Hvernig mun hringrás gróðurhúsalofttegundanna, koldíoxíðs (CO2), metans (CH4) og hláturgass (N2O) breytast í framtíðinni? Hafa vötn, mýrar, skógar og önnur gróðurvistkerfi áhrif á veðurfar? Hverjir eru möguleikar breyttrar landnotkunar ss. skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis á að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga? Hversu mikilvæg er myndun loftarða (e: aerosols) í mismunandi gróðurlendum fyrir veðurfar heimsins? Hverjar eru nýjustu kenningar og uppgötvanir á þessu sviði?

Á ráðstefnunni verður leitast við að svara ofangreindum spurningum og gefið yfirlit yfir stöðu málaflokksins. Ráðstefnan er jafnframt lokafundur tveggja norrænna öndvegissetra á sviði umhverfisrannsókna sem styrkt voru af norrænu rannsóknaráðunum og Norðurlandaráði árin 2003-2008. Ráðstefnan verður haldin á ensku og samanstendur af fyrirlestrum og veggspjöldum. Fyrirlesarar verða nokkrir af helstu sérfræðingum Norðurlanda á sviði loftslagsmála, auk þekktra vísindamanna frá Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Japan og víðar. Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.

Ráðstefnan hefst mánudaginn 16/6 kl. 13:00 með setningu Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra Umhverfisráðuneytisins, og hún stendur fram á miðvikudag 18/6. Ráðstefnan er öllum opin á meðan húsrúm leyfir og skráning fer fram á staðnum. Ráðstefnugjald fyrir gesti er 7000 kr/dagurinn eða 15.000 kr fyrir alla dagana. Frítt er fyrir háskólanema gegn framvísun skólaskírteina.

Það eru Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands sem halda ráðstefnuna í samstarfi við norrænu öndvegissetrin. Í skipulagsnefnd ráðstefnunnar sitja m.a. Brynhildur Bjarnadóttir /brynhildur[hjá]skogur.is), Bjarni Diðrik Sigurðsson (bjarni[hjá]lbhi.is) og Hlynur Óskarsson (hlynur[hjá]lbhi.is). Þau geta veitt frekari upplýsingar, sé þess óskað. Að auki má finna allar nauðsynlegar upplýsingar um ráðstefnuna á heimasíðunni www.lbhi.is/necc-bacci2008.



Myndin sýnir iðufylgni-mælitæki (e: eddy covariance) í ungum lerkiskógi í Vallanesi á Fljótsdalshéraði sem mæla kolefnisbindingu skógarins með beinum hætti, um leið og hún á sér stað. Þessar mælingar eru hluti af þeim rannsóknum sem Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarháskóinn hafa unnið í tengslum við þátttöku í norræna öndvegissetrinu.