Sérfræðingar við trjámælingar. Á rauðu og hvítu stikunni er endurskin sem tækin geta numið og þannig…
Sérfræðingar við trjámælingar. Á rauðu og hvítu stikunni er endurskin sem tækin geta numið og þannig má finna viðkomandi tré aftur við endurteknar mælingar á sama stað.

Starfsmenntanám og BS-nám í skógfræði

Landbúnaðarháskólinn hefur opnað fyrir umsóknir um nám á næsta skólaári. Að venju er boðið upp á nám á starfsmennta- og háskólabrautum, þar á meðal land­græðslu- og skógræktarnám en einnig nám í skógræktartækni, meðal annars með áherslu á landgræðsluskógrækt. Vaxandi áhersla er nú lögð á skógrækt og nýtingu viðar og annarra skógarafurða vítt og breitt um heiminn. Tækifærin eru því mörg fyrir fólk með skógarmenntun.

Starfsmenntanámið skógur/náttúra

Á Reykjum í Ölfusi er í boði starfsmennta­námsem kallast skógur/náttúra. Það veitir nemendum undirstöðuþekkingu í störfum sem lúta að skógrækt og umönnun umhverfis. Kenndar eru grunngreinar náttúrufræði, svo sem jarðvegs- og áburðarfræði, plöntuþekking, plöntulífeðlisfræði, vistfræði og umhverfisfræði. Einnig er fjallað ítarlega um skógrækt, nýtingu skógarafurða, skjólbelti, útivistarsvæði og friðlönd. Að loknu námi getur fólk fengið störf við skóg- og trjárækt og verkstjórn á þeim sviðum. Jafnframt vinnur fólk með þessa menntun margvísleg störf sem tengjast uppgræðslu, landbótum, náttúruvernd, útivistar- og ferðaþjónustusvæðum, grænum svæðum í þéttbýli o.fl.

Skógfræði á háskólastigi

Skógfræði og landgræðsla er þriggja ára BS-nám við LbhÍ á Hvanneyri. Annars vegar er nám með áherslu á sjálfbæra skógrækt og hins vegar á endurheimt vistkerfa á illa förnu landi, jarðvegs- og gróðurvernd og aðra landgræðslu.

Námslínurnar eru því tvær, skógfræði og landgræðslufræði, og fylgjast að mestu að fyrstu tvö árin en aðgreinast svo á lokaári. Á skógfræðilínunni er áhersla lögð á skóginn, bæði sem endurnýjanlega hráefnisauðlind á Íslandi og sem vistkerfi sem veitir margvíslega vistþjónustu. Farið er í ræktunartækni skógræktar, sjálfbæra nýtingu og umhirðu skóglenda, aðlögun að landslagi, vandaða áætlanagerð og skipulag framkvæmda sem og nýsköpun og fleira.


Vaxandi þörf verður fyrir  skógfræði­mennt­að fólk á komandi árum og áratugum, bæði vegna þess að smám saman er að byggjast upp skógarauðlind á Íslandi sem þarf að viðhalda, efla og nýta og vegna þess að skógrækt er eitt þeirra tækja sem mannkynið hefur öflugust til að berjast gegn sívaxandi hlutfalli koltvísýrings í lofthjúpi jarðarinnar og tilheyrandi  loftslagsbreytingum.

Margvísleg tækifæri bíða skógfræðinga í nútíð og framtíð, störf hjá ríki og sveitar­félög­um, skógarbændum og fyrirtækjum en einnig óteljandi möguleikar um allan heiminn. Skógrækt og nýting viðar og annarra skógarafurða er sífellt meiri gaumur gefinn, rannsóknir fara vaxandi og þróunarstarf í þriðja heiminum svo eitthvað sé nefnt.

Nám í skógtækni og skógfræði er freistandi kostur fyrir ungt fólk sem veltir fyrir sér hvaða leið eigi að velja í lífinu.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson