(Morgunblaðið, 15/2 2004)
 
Umhverfisvitund er heildarheiti yfir (lífs)gildi, þekkingu, viðhorf og atferli sem varða umhverfismál, í tilteknu samfélagi.

Umhverfisverndarhyggja (environmentalism) er heildarheiti yfir hverja þá hugmyndafræði eða stefnu sem hefur umhverfis- og/eða náttúruvernd að meginmarkmiði. Umhverfisverndarhyggja getur t.d. byggst á visthverfri, lífhverfri eða mannhverfri afstöðu til náttúrunnar.

Umhverfisverndarsinni (environmentalist) er hver sá einstaklingur sem aðhyllist umhverfisverndarhyggju af einhverjum toga og/eða er almennt hlynntur aðgerðum sem miða að verndun umhverfis og náttúru.

Umhverfishygð (environmental concern) vísar til þess almenna stuðnings sem umhverfisvernd nýtur í tilteknu samfélagi á tilteknum tíma. Hún er eins og hitamælir á mikilvægi umhverfismála í samfélaginu. Algengast er mælingar á umhverfishygð gegni hlutverki "hitamælis" eða "loftvogar" sem fyrst og fremst sýnir magn stuðnings við umhverfisvernd, þ.e. hversu mikils (eða lítils) stuðnings hún nýtur, í samfélaginu.

Náttúrusýn:

- mannhverf (anthropocentric) viðhorf setja manninn í öndvegi, velferð hans og öryggi.

- visthverf (ecocentric) viðhorf hafa megináherslu á heilbrigða náttúru, þar sem vistkerfum er ekki raskað.

- lífhverf (biocentric) viðhorf setja velferð dýra og lifandi vera í öndvegi.

Sjálfbær þróun er uppbygging sem fullnægir þörfum nútímans án þess að stofna getu kynslóða framtíðarinnar til að fullnægja sínum þörfum í hættu. Það inniheldur tvö lykilhugtök: hugtakið "þarfir", sérstaklega frumþarfir hinna fátæku í heiminum sem ættu að fá ýtrasta forgangsrétt; og hugmyndina um takmarkanir sem staða tækni og samfélagsskipulags setur getu umhverfisins til að mæta þörfum nútíðar og framtíðar. Our Common Future, bls. 43

Staðardagsskrá 21: "Eitt af grundvallaratriðum nútímaumhverfisstefnu er að íbúar borgarinnar hafi möguleika á því að taka þátt í stefnumótun og að sjónarmið þeirra fái hljómgrunn. Með þessu eykst þátttökulýðræði samfélagsins og borgarbúar finna að tekið er mark á viðhorfum þeirra." (Reykjavíkurborg 2001)

Umhverfisvandamál eru vandamál manna segir í inngangi að nýlegu greinasafni um umhverfisfélagsfræði / umhverfismál stafa af umsvifum manna, hafa áhrif á menn og lausn þeirra er undir mönnum komin. (Dunlap o.fl. 2002) Alvarleg ógnun við náttúru og samfélag er brýnt viðfangsefni fyrir rannsóknir.