Fjallað var um skógarelda í Speglinum á Rás 1 og rætt við Aðalstein Sigurgeirsson, fagmálastjóra Skó…
Fjallað var um skógarelda í Speglinum á Rás 1 og rætt við Aðalstein Sigurgeirsson, fagmálastjóra Skógræktarinnar.

Rætt við fagmálastjóra Skógræktarinnar í Speglinum

Skógareldar geta kviknað af bæði náttúr­leg­um orsökum og af mannavöldum. Margar trjátegundir treysta á skógarelda til endur­nýjunar en í þéttbýlum löndum á mað­urinn líklega sök á flestum skógar­eldum. Með góðri skógarumhirðu og skógar­nytjum má draga úr hættunni.

Þessi efni voru rædd við Aðalstein Sigur­geirsson, fagmálastjóra Skógræktarinnar, í Speglinum á Rás 1 í gær, mánudag. Til­efnið er skógareldarnir sem geisað hafa undanfarna daga í Portúgal, einu skóg­lendasta landi Evrópu. Aðalsteinn leggur áherslu á að til að skógareldar geti breiðst út þurfi ákveðnar aðstæður að vera fyrir hendi, mikill eldsmatur, þurrkar og þurrviðri. Mest sé hættan þar sem mikið hafi safnast upp af lífrænu efni í skóginum, dauðum bolum og greinum. Draga megi úr hættunni með því að draga úr uppsöfnun lífræns efnis, til dæmis með grisjun og nytjum skógarins en einnig með því að útbúa eldlínur í skóginum, til dæmis vegi eða stíga sem hefta útbreiðslu eldsins.

Aðalsteinn segir ábyggilegt að skógareldar séu víða alvarlegri í heiminum hin síðari ár en áður var og hnattræn hlýn­un eigi vafalaust hlut að máli. Í Portúgal hafi til dæmis verið þurrt í vor og mjög hlýtt síðustu daga sem hafi skapað kjöraðstæður fyrir skógarelda. Vísbendingar séu um að skógareldar hafi orðið heitari á síðustu áratugum en allt bygg­ist þetta þó á aðstæðum á hverjum stað og hvað hafi verið gert til að draga úr hættunni.

Aðspurður um hvort hætta sé á skógareldum á Íslandi segir Aðalsteinn að hætta sé á alls kyns gróðureldum á Ís­landi, sinueldum, mosaeldum, mýraeldum og skógareldum. Hversu alvarlegir eldarnir verði ráðist af því hversu mikill eldsmaturinn sé og hversu mikið eldurinn geti breiðst út. Hann bendir á að ræktaðir skógar séu hálft prósent af land­inu en skógur og kjarr tæplega tvö prósent, skógarnir okkar séu sjaldnast á mjög stórum og samhangandi svæðum og því yrðu slíkir eldar aldrei sú ógn sem víða sé í öðrum löndum. Samt sem áður sé unnið að viðbúnaðaráætlunum fyrir skóga á Íslandi og ráðstöfunum til að koma í veg fyrir skjóta og öra útbreiðslu elda í skógum og öðru gróðurlendi. Eðlilegur hluti af allri landnýtingu, þar á meðal skógrækt, þurfi að vera að gera ráðstafanir til varnar eldum.

Texti: Pétur Halldórsson