Skilafrestur til 25. mars

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur nú auglýst eftir tilnefningum til umhverfis­viðurkenningar­inn­ar Kuðungsins. Í til­kynn­ingu frá ráðuneytinu er bent á að þetta sé gott tækifæri til að vekja athygli á því góða umhverfisstarfi sem unnið sé í fjöl­mörg­um fyrir­tækjum og verðlauna það sem vel sé gert. Frestur til að skila inn tilnefningum er til 25. mars.

Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir að tilnefnd verði fyrirtæki eða stofnanir sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári megi telja verðug þess að hljóta Kuðunginn fyrir árið 2017. Kuðungurinn verður afhentur á degi umhverfisins, 25. apríl.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Við mat á viðurkenn­ing­ar­höf­um er horft til eftirfarandi þátta: Umhverfisstjórnunar, innleiðingar nýjunga í umhverfisvernd, losun gróður­húsa­lofttegunda, minni efnanotkunar, lágmörkunar úrgangs, mengunarvarna, umhverfisvænni þróun á vöru eða þjón­ustu, framlags til umhverfismála, samstarfs í umhverfismálum og vinnuumhverfis.

Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 25. mars merktar „Kuðungurinn 2017“, á póstfangið postur@uar.is eða með pósti í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.