Aðferðir við mat á gæðum skógarplantna eru byggðar á þörfinni til að skilja betur lífs- og vaxtarþrótt skógarplantna sem ræktaðar eru í gróðurhúsum og gróðursettar út á mörkina. Við gæðaprófunina eru notaðar nokkrar velþekktar og prófaðar aðferðir til þess að leggja mat á ákveðna eiginleika plöntunnar.  Fyrir eitt plöntupartí væri hægt að láta sýni fara í gegnum nokkur próf og niðurstöðurnar síðan skoðaðar í samhengi við hvora aðra og ræktunarsögu plöntunnar.

Að vorinu er skoðaður rótarvöxtur, hæð, rótarhálsþvermál, þurrvikt og hlutfall á milli rótar og sprota.  Á haustin er plantan skoðuð með tilliti til þess hversu vel undirbúin hún er fyrir veturinn, þ.e.a.s. frostþol og dvalastig er metið.

Nú í vor hafa plöntur verið í gæðaprófun í gróðrarstöðinni í Vaglaskógi.  Prófunin fer þannig fram að annars vegar eru plönturnar ræktaðar í fimm vikur í bökkum og að þeim tíma liðnum er þróttleiki og útlit metið.  Hins vegar eru plönturnar ræktaðar í svokölluðu RGC-borði (Root Growth Capacity) þar sem hita-, birtu- og rakaskilyrði eru hin ákjósanlegustu fyrir plöntuna (sjá mynd 1) og að þremur vikum liðnum er rótarvöxtur metinn.  Þetta próf er hraðvirkt sjónrænt mat á rótarþrótti (sjá mynd 2).

Rótarvöxtur hjá greni er breytilegur yfir vaxtartímann og þannig vaxa rætur stundum ekki á frískum plöntum þrátt fyrir að skilyrði séu hin ákjósanlegustu.  RGC niðurstöður eru einnig breytilegar á milli tegunda, innan tegundar (erfðafræðilegur breytileiki), milli plöntugerða (plöntustærða) og vegna mismunandi ræktunartækni í gróðurhúsum.

Hrefna Jóhannesdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, Mógilsá.  Sími 461-5645

 

Myndin að ofan sýnir plöntur eftir þriggja vikna ræktun í RGC-borði.  Eins og sést á myndinni var töluverður gæðamunur á plöntuhópunum sex sem skoðaðir voru.