Skógræktarfélag Austurlands er að láta grisja u.þ.b. 45 ára gamlan sitkabastarðsreit í Eyjólfsstaðaskógi á Héraði og er það fyrirtækið Skógráð ehf. sem tók að sér verkið.  Við útdrátt nota þeir félagar Lofur Jónsson og Ásmundur Þórarinsson lítinn timburvagn sem dreginn er af sexhjóli. Kraninn á vagninum er knúinn af 6 hestafla vél sem hafður er á palli sexhjólsins og er mjög lipur við að ferma og afferma vagninn þegar menn hafa vanist honum.

Notkun á sexhóli og litlum timburvagni krefst mun minni slóðagerðar en ef stærri tæki væru notuð og veldur minna raski en útdráttur með keðjum og spili. Þetta ætti því að henta í smærri reitum þar sem slóðagerð tæki annars of stóran hluta þeirra og á árstímum þegar jarðvegur er viðkvæmur fyrir raski, t.d. núna þegar frost er að fara úr jörð.

Nánast ekkert jarðvegsrask varð vegna sexhjólsins og timburvagnsins knáa. Hins vegar reyndust sumir bolirnir heldur langir fyirir bómu kranans og þurfti því að saga allmarga þeirra í tvennt fyrir flutning út úr skóginum. Á myndunum má sjá hleðslu vagnsins í skóginum, keyrslu út úr skógi og effermingu við veg.